Opnun Danmerkur fyrir ferðamönnum frá Íslandi, Noregi og Þýskalandi þann 15. júní verður með nokkrum takmörkunum. Þannig verður ferðamönnunum ekki heimilað að gista í Kaupmannahöfn en þar hafa flest smit komið upp í landinu. Þó verður heimilt að heimsækja höfuðborgina og borða á veitingastöðum þar.

Ferðamenn þurfa að sýna fram á að hafa bókað gistingu í minnst sex nætur á hótelum, gistiheimilum eða tjaldsvæðum.

Dönsk stjórnvöld ætla að fara varlega í opnun landsins og er ekki búist við að ferðamenn frá fleiri löndum bætist við fyrr en í haust.

Danir ferðist til Íslands, Noregs og Þýskalands í sumar

Að sama skapi ráðleggja dönsk stjórnvöld Dönum frá ferðalögum fram til 31. ágúst. Undantekning frá þessu eru ferðir til Íslands, Noregs og Þýskalands. Dönum er þó ráðlagt að halda sig frá stórborgum og að fylgja fyrirmælum landanna.