Að minnsta kosti 53 meðlimir stjórnarandstöðunnar í Hong Kong voru handteknir í morgun vegna gruns um brot á nýjum öryggislögum í sjálfstjórnarhéraðinu. Lögin kveða meðal annars á um bann á niðurrifsstarfsemi í garð stjórnvalda en lýðræðissinnar segja lögin skerða réttindi íbúa.

Handtökurnar voru allar í tengslum við forkosningar í Hong Kong í júlí 2020 en sex voru handteknir fyrir að skipuleggja kosningarnar á meðan hinir voru handteknir fyrir að taka þátt í kosningunum, sem var ætlað að þrengja niður valið á lýðræðissinnuðum frambjóðendum fyrir kosningarnar í september, sem var síðan frestað vegna COVID-19.

Útiloka ekki að fleiri verði handteknir

Að því er kemur fram í frétt CNN sagði talsmaður lögreglu í Hong Kong við fjölmiðla í dag að enn væri verið að rannsaka málið og það væri ekki útilokað að fleiri yrðu handteknir vegna þess. Fleiri en þúsund lögreglumenn tóku þátt í aðgerðunum og voru leitir framkvæmdar víða.

Meðal þeirra sem voru handteknir voru fyrrverandi þingmenn og aktívistar, en auk þeirra var bandaríski lögmaðurinn John Clancey handtekinn fyrir hans þátt í kosningunum. Handtaka hans gæti flækt samskipti Bandaríkjanna við Kína og Hong Kong.

Anthony Blinken, sem Joe Biden hefur tilnefnt í embætti utanríkisráðherra Bandaríkjanna, fordæmdi handtökurnar á Twitter og sagði að um væri að ræða árás á þá sem berjast fyrir réttindum sínum. „Biden-Harris ríkisstjórnin mun standa með íbúum Hong Kong og á móti herferð Peking gegn lýðræði.“