Meðlimir Norrænu mótstöðuhreyfingarinnar vöktu athygli á Lækjartorgi í dag þegar tveir meðlimir hreyfingarinnar stilltu sér upp með fána Norðurvígis sem starfar undir gildum þjóðernisfélagshyggju.
„Við erum hér til þess að safna nýliðum og vekja Íslendinga til umhugsunar“ sagði Simon Lindberg, leiðtogi Nordic Resistance Movement, í samtali við blaðamann Fréttablaðsins. Lindberg segir Norðurvígi hafa verið til staðar í nokkurn tíma hér á landi og að þeir séu sífellt að stækka.
Lögreglan kölluð til
Aðilar á vegum hreyfingarinnar sáu um að afhenda gangandi vegfarendum bæklinga með upplýsingum um Norðurvígi. Samkvæmt bæklinginum er hvatt til mótspyrnu og að einstaklingar finni á ný víkingablóðið í æðum þeirra.
Lögreglan hafði afskipti af hópnum stuttu fyrir hádegi. Samkvæmt lögreglufulltrúa var einn maður handtekinn. Ástæða handtökunnar var að maðurinn neitaði að segja til nafns. Honum var síðar sleppt eftir að hafa gefið upp nafn sitt.
Fréttin hefur verið uppfærð.
