Frá því að neyslurýmið Ylja tók til starfa í mars á þessu ári hafa starfsmenn fengið 567 heimsóknir frá 90 notendum. Meðalaldur þeirra er 37 ár og er meirihlutinn karlmenn. Frá því að rýmið tók til starfa hafa í 112 skipti myndast biðraðir og hafa 50 notendur, sem höfðu komið að rýminu, horfið frá því vegna langrar biðar. Meðalbiðtími er 28 mínútur en hefur farið upp í allt að 70 mínútur.

Þetta kom fram í dag í erindi þeirra Villimeyjar Lífar Friðriksdóttur og Þórhildar Maríu Jónsdóttur en báðar starfa þær í Ylju. Erindið fluttu þær á ráðstefnu um skaðaminnkun en þar fóru þær yfir sögu neyslurýmisins á ráðstefnu um skaðaminnkun í dag og þær áskoranir sem þær hafa rekið sig á frá því að rýmið var sett á stofn.

Ylja er færanlegt rými og fyrsta örugga og formlega neyslurýmið á Íslandi. Það tók til starfa í mars á þessu ári.

„Þetta er eini staðurinn á landinu þar sem ekki er refsivert að vera með neysluskammt á sér,“ sagði Þórhildur en rýmið er inni í bíl sem hefur verið sérstaklega innréttaður. Bíllinn var áður rekinn í verkefni Frú Ragnheiðar en áætlaður rekstrarkostnaður hans á ári er áætlaður 50 milljónir og er greiddur af Sjúkratryggingum Íslands.

Leyfið vegna rekstursins er gefið út til eins árs en leyfið er það fyrsta sinnar tegundar sem er gefið út og var hægt að gefa það út í kjölfar lagabreytinga sem áttu sér stað árið 2020.

Innan í neyslurýminu. Gert var mikið upp úr því að það væri notalegt.
Mynd/Aðsend

Erfitt að standa úti lengi á Íslandi og bíða

Fram kom í erindi Þórhildar að staðsetning bílsins er ákveðin með tilliti til þarfa notenda í huga og staðsett miðsvæðis í Reykjavík, í góðu samstarfi við viðbragðsaðila. Notendur eru upplýstir um staðsetninguna á hverjum degi en það kom þó fram í erindinu að hann er bilaður eins og stendur og er ekki starfræktur næstu tvo dagana.

Í bílnum er lögð mikil áhersla á skaðaminnkandi úrræði en þar geta notendur einnig fengið lágmarksheilbrigðisþjónustu og einfaldlega slakað á. Allur búnaður er í bílnum til að nota vímuefni í æð en auk þess er þar að finna smokka, sleipiefni, vigt og lítinn hjúkrunarlager.

„Viljum minnka líkur á að fólk þurfi að nota vímuefni á almannafæri,“ sagði Þórhildur og að í Ylju sé allt gert til að stuðla að ábyrgari neysluhegðun eins og að gæta að hreinlæti og að fólk hendi sínum búnaði þegar það er búið með hann til að koma í veg fyrir smithættu af öðrum sjúkdómum.

Í bílnum fær fólk að nota vímuefni undir leiðbeiningum sérhæfðs starfsfólks, fær skaðaminnkandi leiðbeiningar auk þess sem þar er að finna nálaskiptaþjónustu. Þar er alltaf hjúkrunarfræðingur sem dreifir Naloxone. Einnig dreifa þau hlýjum fötum.

Villimey tók við af Þórhildi og fór yfir mikilvægi þess að sinna málsvarastarfi fyrir hönd notenda en hópurinn verður fyrir miklum fordómum víða í samfélaginu. Hún fór einnig yfir þær áskoranir sem þær hafa mætt frá því að bíllinn tók til starfa en til dæmis er meðalbiðtími að komast inn í bílinn 28 mínútur, en hefur farið upp í 70 mínútur.

„Það getur verið erfitt í íslensku veðurfari,“ sagði Villimey.

Misstu 50 notendur vegna biðraðar

Hún sagði frá því að í 112 skipti hefðu myndast biðraðir við bílinn og að 50 af þeim sem hafi þurft að bíða hafi ekki þolað bið. Þær tóku númerið hjá öllum og náðu að fá 62 aftur inn þegar losnaði.

Þá sagði hún einnig að það sem hamlaði þeim mikið væri að hafa til dæmis ekki aðgengi að salerni og að bíllinn er viðkvæmur fyrir vindum og hreyfingu innan hans

Hún sagði mikilvægt að stefnt væri að því að hafa opið allan sólarhringinn og að neyslurýmið ætti sér fastan og öruggan stað. Þá sagði hún einnig fólk kvarta undan því að það væri lokað um helgar og á rauðum dögum.

Þá vantar enn úrræði og stað fyrir fólk sem reykir vímuefnin sín.

Hér að neðan má sjá glærur frá erindi þeirra en þar birtu þær nokkrar athugasemdir frá notendum sem sögðu:

„Það hefur létt lífið helling að fá Ylju,“ sagði einn notenda um þjónustuna á meðan annar sagði:

„Annars staðar í kerfinu er talað við mig eins og sjúkling en hér er talað við mig eins og manneskju,“ en Villimey birti á skjá nokkrar athugasemdir frá notendum Ylju um starfsemina þar.

Ráðstefnan fer fram á Hótel Natura í dag og er á vegum samtakanna Matthildur – skaðaminnkunarsamtökin. Fjallað vvar þar um skaðaminnkun á Íslandi og farið yfir stöðuna á skaðaminnkandi starfi á Íslandi og skaðaminnkandi verkefni og kynnt úrræði. Þá hélt Arild Knutsen leiðtogi The Association for Humane Drug Policies í Noregi erindi um notendahreyfinguna, stöðu skaðaminnkunar í Noregi og þær miklu umbætur sem hafa átt sér staði í vímuefnastefnu landsins og Matthildur Jónsdóttir Kelly, sem samtökin eru nefnd í höfuðið á, vera heiðruð.