Melrakkinn á undir högg að sækja á vestanverðu landinu, en þar hefur meðalævi hans styst til muna. Tilgáta er uppi um að plastmengun í sjó dragi líka úr frjósemi hans.
Enda þótt refastofninn á Íslandi hafi almennt styrkst frá síðustu niðursveiflu fyrir tæplega fimmtán árum eru merki þess að meðalaldur melrakkans sé að lækka og ófrjósemi að aukast, einkum og sér í lagi um vestanvert landið.
Þetta staðfestir Ester Rut Unnsteinsdóttir líffræðingur sem hefur um árabil kannað viðkomu refastofnsins um allt land, en hún segir hann hafa sveiflast nokkuð á þessari og síðustu öld. Stofninn hafi verið í sögulegu lágmarki fram til 1980 þegar mikill vöxtur hljóp í hann sem varði allt til 2008, en þá hafi sveiflan legið niður á við á ný. Á allra síðustu árum hafi stofninn þó heldur hjarnað við.
Núna séu um níu þúsund tófur í stofninum, mælt að haustlagi, að meðtöldum fjögurra mánaða yrðlingum, en blikur séu þó á lofti. „Við sjáum núna landfræðilegan mun á stofninum. Á austurhluta landsins er hann í jafnvægi, en við greinum fækkun á því vestanverðu, svo sem í friðlöndunum á Hornströndum og utanverðu Snæfellsnesi,“ segir Ester Rut.

Hún segir athyglisvert að ófrjósemi hafi aukist á því svæði, en samhliða hafi meðalaldur lágfótunnar lækkað. „Það er algengara á seinni árum að refurinn á vesturhluta landsins nái aðeins tveggja til fjögurra ára aldri, en áður náði hann vanalega fjögurra til sex ára aldri að meðaltali,“ segir Ester Rut, en elstu refir hér á landi hafa orðið allt að níu ára samkvæmt rannsóknum.
Ástþór Skúlason, bóndi á Melanesi á Rauðasandi, sem er þaulvön refaskytta og hefur vitjað grenja um áratugaskeið, telur augljóst að frjósemi tófunnar hafi minnkað á undanförnum árum. „Það leikur ekki nokkur vafi á því,“ segir hann í samtali við blaðið. „Frjósemin virðist vera á undanhaldi. Og ekki einasta er það reynsla okkar hér vestra að færri læður verði hvolpafullar en áður, heldur eignast þær læður, sem þó verða hvolpafullar, mun færri yrðlinga en fyrrum tíð,“ segir Ástþór.
Kenningar hafi verið uppi um að þessa auknu ófrjósemi megi rekja til plastmengunar sem stafar af sjókvíaeldi vestra, sem hefur vaxið til muna á síðustu árum, en hún fari í fugla og þaðan í melrakkann.
Ester Rut kveðst ekki geta staðfest að svo sé, en rannsóknir á þeim þáttum vanti. Enginn vafi er þó í huga Veigu Grétarsdóttur í þeim efnum, en hún reri sem kunnugt er á kajak sínum hringinn í kringum Ísland, rangsælis, fyrst kvenna, sumarið 2019 – og komst þar í mikið návígi við rebba.
Hún kveðst á ferðum sínum hafa mælt þessa mengun. Á gömlum og nýjum fóðurrörum sem notuð eru í kvíunum muni um 100 grömmum á metrann. Í hverju kvíastæði séu allt að fimm kílómetrar af rörum og þaðan fari því minnst 200 kíló af plasti í sjóinn á ári. „Á öllum kvíasvæðunum vestra erum við því að sjá á eftir tveimur til þremur tonnum af plasti í lífríkið á hverju ári,“ segir Veiga Grétarsdóttir.