Mel­rakkinn á undir högg að sækja á vestan­verðu landinu, en þar hefur meðal­ævi hans styst til muna. Til­gáta er uppi um að plast­mengun í sjó dragi líka úr frjó­semi hans.

Enda þótt refa­stofninn á Ís­landi hafi al­mennt styrkst frá síðustu niður­sveiflu fyrir tæp­lega fimm­tán árum eru merki þess að meðal­aldur mel­rakkans sé að lækka og ó­frjó­semi að aukast, einkum og sér í lagi um vestan­vert landið.

Þetta stað­festir Ester Rut Unn­steins­dóttir líf­fræðingur sem hefur um ára­bil kannað við­komu refa­stofnsins um allt land, en hún segir hann hafa sveiflast nokkuð á þessari og síðustu öld. Stofninn hafi verið í sögu­legu lág­marki fram til 1980 þegar mikill vöxtur hljóp í hann sem varði allt til 2008, en þá hafi sveiflan legið niður á við á ný. Á allra síðustu árum hafi stofninn þó heldur hjarnað við.

Núna séu um níu þúsund tófur í stofninum, mælt að haust­lagi, að með­töldum fjögurra mánaða yrð­lingum, en blikur séu þó á lofti. „Við sjáum núna land­fræði­legan mun á stofninum. Á austur­hluta landsins er hann í jafn­vægi, en við greinum fækkun á því vestan­verðu, svo sem í frið­löndunum á Horn­ströndum og utan­verðu Snæ­fells­nesi,“ segir Ester Rut.

Ester Rut Unnsteinsdóttir, líffræðingur.
Mynd/aðsend

Hún segir at­hyglis­vert að ó­frjó­semi hafi aukist á því svæði, en sam­hliða hafi meðal­aldur lág­fótunnar lækkað. „Það er al­gengara á seinni árum að refurinn á vestur­hluta landsins nái að­eins tveggja til fjögurra ára aldri, en áður náði hann vana­lega fjögurra til sex ára aldri að meðal­tali,“ segir Ester Rut, en elstu refir hér á landi hafa orðið allt að níu ára sam­kvæmt rann­sóknum.

Ást­þór Skúla­son, bóndi á Melanesi á Rauða­sandi, sem er þaul­vön refa­skytta og hefur vitjað grenja um ára­tuga­skeið, telur aug­ljóst að frjó­semi tófunnar hafi minnkað á undan­förnum árum. „Það leikur ekki nokkur vafi á því,“ segir hann í sam­tali við blaðið. „Frjó­semin virðist vera á undan­haldi. Og ekki einasta er það reynsla okkar hér vestra að færri læður verði hvolpa­fullar en áður, heldur eignast þær læður, sem þó verða hvolpa­fullar, mun færri yrð­linga en fyrrum tíð,“ segir Ást­þór.

Kenningar hafi verið uppi um að þessa auknu ó­frjó­semi megi rekja til plast­mengunar sem stafar af sjó­kvía­eldi vestra, sem hefur vaxið til muna á síðustu árum, en hún fari í fugla og þaðan í mel­rakkann.

Ester Rut kveðst ekki geta stað­fest að svo sé, en rann­sóknir á þeim þáttum vanti. Enginn vafi er þó í huga Veigu Grétars­dóttur í þeim efnum, en hún reri sem kunnugt er á kajak sínum hringinn í kringum Ís­land, rang­sælis, fyrst kvenna, sumarið 2019 – og komst þar í mikið ná­vígi við rebba.

Hún kveðst á ferðum sínum hafa mælt þessa mengun. Á gömlum og nýjum fóður­rörum sem notuð eru í kvíunum muni um 100 grömmum á metrann. Í hverju kvía­stæði séu allt að fimm kíló­metrar af rörum og þaðan fari því minnst 200 kíló af plasti í sjóinn á ári. „Á öllum kvía­svæðunum vestra erum við því að sjá á eftir tveimur til þremur tonnum af plasti í líf­ríkið á hverju ári,“ segir Veiga Grétars­dóttir.