Meðalævilengd á Íslandi er orðin 83,2 ár, eins og hún var árið 2019. Árið 2020 minnkaði hún um 0,1 ár eða rúman mánuð. Þetta eru minni sveiflur á meðalævilengd en orðið hafa undanfarinn áratug. Til dæmis minnkaði hún um 0,9 ár árið 2013 og 0,3 ár árið 2016.

Undanfarna áratugi hefur meðalævilengdin hækkað. Árið 1961 mátti meðal Íslendingur búast við að lifa í 73,5 ár. Árið 2001 var talan komin yfir 80 og voru þá hæstu lífslíkur í Evrópu. Meðalævilengd hefur aldrei verið hærri en nú en engu að síður höfum við hrapað niður listann.

Hæst er meðalævilengdin í örríkinu Liechtenstein, 84,4 ár, en þar á eftir koma Sviss og Spánn. Íslendingar deila sæti með Svíum og Norðmönnum.

Íslenskir karlar mega gera ráð fyrir að lifa tæpum þremur árum skemur en konurnar. Meðalævilengd þeirra er 81,8 ár en 84,5 ár hjá konunum. Engu að síður lifa íslenskir karlar mun lengur í alþjóðlegum samanburði en konurnar. Þeir eru í þriðja sæti Evrópulistans en konurnar aðeins í því ellefta