Fimm pólskir karlmenn hafa verið ákærðir fyrir ólöglegan innflutning á samtals 3336 töflum ópíóðum á tímabilinu 25. mars til 16. apríl síðastliðnum, ætluðum til söludreifingar hér á landi í ágóðaskyni.
Ekki er farið með málin eins og um samverknað eða tengd mál sé að ræða heldur hafa mennirnir fimm verið ákærðir af lögreglustjóranum á Suðurnesjum hver í sínu lagi.
Efni falin innan um kaffi, sælgæti og sápu
Tveir mannanna komu með sömu flugvél til Íslands frá Gdansk þann 25. mars síðastliðinn. Í nærbuxum annars þeirra fundust 839 töflur af OxyContin en 851 tafla af sama efni fannst í sælgætispoka í farangri hins. Mennirnir eru báðir á þrítugsaldri, fæddir árin 1997 og 1998.
Viku síðar var þriðji maðurinn stöðvaður í tollhliðinu í Keflavík eftir komu frá Gdansk þann 2. apríl. Í farangri hans fundust, faldar í raksápubrúsa, 857 töflur af OxyContin.
Tveimur dögum síðar, 4. apríl síðastliðinn, var 19 ára pólskur piltur stöðvaður í tollhliðinu eftir komu með flugvél frá Katowice í Póllandi með 848 töflur af OxyContin. Efnin fundust í tveimur kaffibaunapokum í ferðatöskum mannsins.
Að lokum stöðvuðu tollverðir 33 ára gamlan pólskan mann þann 16. apríl síðastliðinn með annars vegar 731 töflu af OxyContin og hins vegar 61 töflu af Contalgin, en allar þessar 792 töflur fundust í nærfötum sem maðurinn klæddist við komuna til landsins.
Ekki kemur fram í ákærunum hvort mennirnir eru búsettir hér á landi en ákærurnar voru allar birtar í lögbirtingablaðinu þar sem ekki tókst að birta þeim ákærurnar með öðrum hætti. Málin á hendur þeim verða þingfest 8. september í Héraðsdómi Reykjaness.
Í tilvikum þeirra allra er gerð krafa um að þeir verði dæmdir til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og til upptöku á hinum ólöglegu efnum.