Fimm pólskir karl­menn hafa verið á­kærðir fyrir ó­lög­legan inn­flutning á sam­tals 3336 töflum ópíóðum á tíma­bilinu 25. mars til 16. apríl síðast­liðnum, ætluðum til sölu­dreifingar hér á landi í á­góða­skyni.

Ekki er farið með málin eins og um sam­verknað eða tengd mál sé að ræða heldur hafa mennirnir fimm verið á­kærðir af lög­reglu­stjóranum á Suður­nesjum hver í sínu lagi.

Efni falin innan um kaffi, sælgæti og sápu

Tveir mannanna komu með sömu flug­vél til Ís­lands frá Gdansk þann 25. mars síðast­liðinn. Í nær­buxum annars þeirra fundust 839 töflur af OxyContin en 851 tafla af sama efni fannst í sæl­gætis­poka í far­angri hins. Mennirnir eru báðir á þrí­tugs­aldri, fæddir árin 1997 og 1998.

Viku síðar var þriðji maðurinn stöðvaður í toll­hliðinu í Kefla­vík eftir komu frá Gdansk þann 2. apríl. Í far­angri hans fundust, faldar í rak­sápu­brúsa, 857 töflur af OxyContin.

Tveimur dögum síðar, 4. apríl síðast­liðinn, var 19 ára pólskur piltur stöðvaður í toll­hliðinu eftir komu með flug­vél frá Katowice í Pól­landi með 848 töflur af OxyContin. Efnin fundust í tveimur kaffi­bauna­pokum í ferða­töskum mannsins.

Að lokum stöðvuðu toll­verðir 33 ára gamlan pólskan mann þann 16. apríl síðast­liðinn með annars vegar 731 töflu af OxyContin og hins vegar 61 töflu af Contal­gin, en allar þessar 792 töflur fundust í nær­fötum sem maðurinn klæddist við komuna til landsins.

Ekki kemur fram í á­kærunum hvort mennirnir eru bú­settir hér á landi en á­kærurnar voru allar birtar í lög­birtinga­blaðinu þar sem ekki tókst að birta þeim á­kærurnar með öðrum hætti. Málin á hendur þeim verða þing­fest 8. septem­ber í Héraðs­dómi Reykja­ness.

Í til­vikum þeirra allra er gerð krafa um að þeir verði dæmdir til refsingar, til greiðslu alls sakar­kostnaðar og til upp­töku á hinum ó­lög­legu efnum.