Fé­lag á­fengis- og vímu­efna­ráð­gjafa (FÁR) lýsa yfir van­trausti á for­mann og fram­kvæmda­stjórn SÁÁ. Þetta kemur fram í fréttatil­kynningu frá fé­laginu. Fé­lagið harmar þá á­kvörðun fram­kvæmda­stjórnar SÁÁ að grípa til upp­sagna og skerða starfs­hlut­fall á­fengis- og vímu­efna­ráð­gjafa hjá SÁÁ sem og þeirri á­kvörðun að segja upp öllum sál­fræðingum, nema einum. Mikill ágreiningur hefur verið innan SÁÁ síðustu daga eftir að framkvæmdastjórn samþykkti niðurskurð á starfseminni, að hluta til vegna kórónuveirufaraldsins. Valgerður Á. Rúnarsdóttir, yfirlæknir á Vogi, sagði starfi sínu lausu í kjölfar samþykktarinnar.

„Með þessum upp­sögnum er heil fag­stétt nánast þurrkuð út úr því þver­fag­lega teymi, sem stendur að með­ferð fólks með fíkn­sjúk­dóm og sér að öllu leyti um sál­fræði­þjónustu fyrir börn þeirra sem glíma við á­fengis og/eða vímu­efna­vanda,“ segir í tilkynningu fé­lagsins.

Fé­lagið mót­mælir einnig upp­sögn þriggja elstu ráð­gjafa SÁÁ sem búa yfir mikilli reynslu og þekkingu. „Fag­legt og fjár­hags­legt tap við brott­hvarf þeirra þegar kemur að af­köstum í vinnu og þjálfun nýrra starfs­manna, er því aug­ljóst.“

Aðalstjórn SÁÁ kemur saman til fundar á morgun en þar verður lögð fram vantrauststillaga á Arnþór Jónsson, formann SÁÁ. Hann bauðst til þess að stíga til hliðar fyrr í dag í von um að Valgerður myndi draga uppsögn sína tilbaka.

Skerðing á þjónustu fyrir viðkvæmasta hópinn

Fé­lagið tekur fram að lækkun starfs­hlut­falls allra starfandi á­fengis- og vímu­efna­ráð­gjafa hjá SÁÁ um 20% mun skera niður þjónustuna sem hægt er að veita fólki með fíkn­sjúk­dóma. „Sá hópur er einn af þeim sem eru í hvað mestri á­hættu gagn­vart Co­vid 19 veirunni. Við höfum þungar á­hyggjur af því á­standi sem hefur skapast vegna þessara að­gerða, ekki síst vegna þeirrar sam­fé­lags­ógnar sem við stöndum nú frammi fyrir. Þörf þessa hóps fyrir þjónustu mun því miður aukast og verða flóknari, nú á þessum for­dæma­lausum tímum.“

FÁR fer ein­dregið fram á það við fram­kvæmda­stjórn SÁÁ og starfs­fólk með­ferðar­sviðs að slíðra sverðin og ná lausn í ofan­greindum málum. Þá kallar fé­lagið eftir því að heil­brigðis­yfir­völd stígi inn í málið. „FÁR skorar á heil­brigðis­yfir­völd þ.e. Al­þingi, heil­brigðis­ráð­herra, Land­lækni og Sjúkra­tryggingar Ís­lands að tryggja fjár­mögnun starf­semi SÁÁ svo að þjónusta við fólk með fíkn­sjúk­dóma og að­stand­endur þeirra geti haldið á­fram á þessum ó­vissu­tímum og fái að þróast á eðli­legan hátt til fram­tíðar.“