Fimm smá­hús sem ætluð eru heimilis­lausu fólki eru nú komin á sína staði á Gufu­nesi en smá­húsin voru flutt frá Sunda­höfn í gær. Að því er kemur fram í til­kynningu frá Reykja­víkur­borg er gert ráð fyrir að fyrstu í­búarnir geti flutt inn í nóvember en með úr­ræðinu verður hús­næðis­kostum sem standa heimilis­lausu fólki til boða fjölgað.

Reykja­víkur­borg bendir á að víða hafi svipaðir bú­setu­mögu­leikar verið notaðir, til að mynda í Belgíu, Finn­landi og Sví­þjóð, og að borgin taki mið af reynslu þeirra. „Þetta er grund­vallar­breyting, því með þessu móti verður íbúi ekki lengur heimilis­laus, heldur einn af í­búum hverfisins. Hann lifir sínu lífi innan veggja síns heimilis, rétt eins og aðrir í­búar hverfisins.“

Að sögn Heiðu Bjargar Hilmis­dóttur er um að ræða mikil­vægt úr­ræði þar sem hús­næði er oft fyrsta skrefið til að ná fót­festu í lífinu. „Jafn­framt leiðir þjónustan til betri lífs­gæða þjónustu­þega og að­stand­enda og dregur úr á­lagi á nær­sam­fé­lag, stofnanir ríkis og sveitar­fé­laga og dregur þar með úr kostnaði.“

Gera ráð fyrir að tuttugu hús rísi á næstu árum

Þeir sem óska eftir því að fá smá­hús út­hlutað þurfa að vera í virkri þjónustu vett­vangs- og ráð­gjafa­t­eymi Reykja­víkur­borgar en teymið starfar eftir þeirri hug­mynda­fræði að allir eigi rétt á hús­næði og geti haldið því með ein­stak­lings­bundinni þjónustu. Reynt verður að taka mið af óskum í­búanna um hvar þeir búa til að raska sem minnst lífi þeirra.

Smáhúsin voru flutt frá Sundahöfn á Gufunes í gær.
Mynd/Reykjavíkurborg

Hvert smá­hús er 30 fer­metrar og er með stofu, eld­hús, svefn­krók, bað­her­bergi og and­dyri, auk þess sem lítill pallur með skjól­vegg er tengdur húsinu. Reykja­víkur­borg lagði mikið upp úr því við hönnun smá­húsanna að þau væru smekk­leg og féllu vel að um­hverfi sínu.

„Smá­húsin eru öruggt hús­næði fyrir ein­stak­linga með vímu­efna- og geð­vanda, allan sólar­hringinn. Því fylgir að þeir hafa greiðari að­gang að þjónustu og stuðningi,“ segir í til­kynningu frá Reykja­víkur­borg um málið en á­ætlað er að tuttugu hús af þessari tegund rísi á sjö mis­munandi stöðum á höfuð­borgar­svæðinu á næstu árum.

Reykjavíkurborg gerir ráð fyrir að 20 smáhús fyrir heimilislaust fólk rísi á næstu árum.
Mynd/Reykjavíkurborg