Óskað var eftir aðstoð lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á tólfta tímanum í gærkvöldi vegna ölvaðs manns sem fór inn í húsnæði og vildi ekki fara.
Í skeyti frá lögreglu kemur fram að húsráðandi hafi reynt að vísa manninum út en þá hafi maðurinn slegist við hann og hlaut húsráðandi skurð á enni. Húsráðandi var fluttur með sjúkrabíl á slysadeild en árásarmaðurinn var handtekinn og vistaður í fangaklefa vegna rannsóknar málsins.
Lögreglu var svo tilkynnt um mann í annarlegu ástandi að grýta hús í hverfi 105 á níunda tímanum í gærkvöldi. Maðurinn var meðal annars sagður hafa brotið rúðu. Lögregla ræddi við manninn sem neitaði í fyrstu en viðurkenndi síðar að hafa kastað einu grjóti. Kvaðst hann ekki muna hvort eitthvað hafi brotnað, að sögn lögreglu.
Þá hafði lögregla afskipti af manni í annarlegu ástandi á hóteli í hverfi 105. Maðurinn vildi ekki yfirgefa hótelið og fór ekki að fyrirmælum lögreglu. Hann var handtekinn og færður á lögreglustöð þar sem hann var síðan vistaður vegna rannsóknar málsins.
Rétt fyrir miðnætti var lögreglu svo tilkynnt um þjófnað á farangri ferðamanns á hóteli í hverfi 105. Tveimur ferðatöskum var stolið sem í var fatnaður og ýmsir aðrir munir, meðal annars vegabréf.
Um svipað leyti var lögreglu tilkynnt um líkamsárás á veitingastað í hverfi 111. Maður í annarlegu ástandi réðst þar á öryggisvörð, en öryggisvörðurinn hafði verið kallaður á vettvang til að vísa manninum út af veitingastaðnum. Maðurinn var handtekinn og vistaður fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu.