Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar, segir með ólíkindum að ekki sé til tölfræði yfir risa inngrip lækna í líf barna sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni. Það sé nauðsynlegt að fylgjast með inngripum sem varða varanlegar breytingar á kynfærum, kynkirtlum eða öðrum kyneinkennum barna. Þetta kemur fram í umræðu um frumvarp um kynrænt sjálfræði sem fór fram á Alþingi í gærkvöldi.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra lagði fram frumvarp um kynrænt sjálfræði á þingfundi í gærkvöldi. Lagt er til breytinga á lögum til að tryggja rétt einstaklinga á að skilgreina kyn sitt og að kynvitund þeirra njóti viðurkenningar. Einnig er lögunum ætlað að standa vörð um rétt einstaklinga til líkamlegrar friðhelgi. Einstaklingum verður heimilt að hafa hlutlausa skráningu kyns. Frumvarpið hefur ekki áhrif á stöðu karla umfram kvenna eða öfugt.
Setur Ísland í fremstu röð
Mat forsætisráðaneytis er að frumvarpið feli í sér mikilvæga réttarbót fyrir trans fólk og intersex fólk á Íslandi. Samtökin ´78 tóku undir þetta í umsögn sinni um frumvarpið.
„Verði frumvarpið að lögum mun það hafa í för með sér gríðarlega mikilvægar réttarbætur og skipa Íslandi í fremstu röð hvað varðar kynrænt sjálfræði og viðurkenningu trans fólks,“ segir í umsögn Samtakanna ´78.
„Sjálfsákvörðunarréttur allra kynja til að stjórna sínu lífi og líkama er grundvallarréttur sem við verðum að tryggja,“
Logi Einarsson, þingmaður Samfylkingarinnar, segir mikilvægt að viðhalda fræðslu og efla vitundavakningu í samfélaginu. Með því að tryggja rétt trans og intersex einstaklinga verður Ísland í forrustu réttinda hinsegins fólks og einu skrefi nær réttlátara samfélagi.
„Sjálfsákvörðunarréttur allra kynja til að stjórna sínu lífi og líkama er grundvallarréttur sem við verðum að tryggja,“ segir Logi Einarsson, þingmaður Samfylkingarinnar, í umræðu frumvarpsins. Hann segir mikilvægt að setja tímamörk fyrir starfshóp að tryggja að frumvarpið verði afgreitt sem allra fyrst.
Leggja til breytingar á lögum um mannanöfn
Verði frumvarpið að lögum í núverandi mynd verða breytingar á lögum um eiginnöfn. Þá munu eftirfarandi málsgreinar falla brott.
Stúlku skal gefa kvenmannsnafn og dreng skal gefa karlmannsnafn.
Millinafn má hvort heldur er gefa stúlku eða dreng.
Þá bætist við nýr málsliður við mannanafnalög, svohljóðandi:
Einstaklingi sem hefur hlutlausa skráningu kyns í þjóðskrá er heimilt að nota nafn föður eða móður í eignarfalli án viðbótar eða að viðbættu bur.
Skortur á upplýsingum um inngrip lækna
Einn hluti af frumvarpinu var fjarlægður sem fjallar um ónauðsynlegar meðferðir á kyneinkennum barna og hvernig mætti koma í veg fyrir það. Hanna Katrín segir nauðsynlegt að tryggja rétt barna sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni og koma í veg fyrir óþarfa læknisfræðileg inngrip.
„Það er engin tölfræði til hér á landi um umfang þessara inngripa. Læknar og aðrir sem gera varanlegar breytingar á kynfærum, kynkirtlum eða öðrum kyneinkennum barna skuli halda skrá yfir það.“
Hún segir það ótrúlegt að ekki skuli vera til tölfræði um inngrip lækna þegar það kemur að börnum með ódæmigerð kyneinkenni.
„Þetta risa inngrip í líf einstaklinga var ekki einu sinni þess virði að halda yfir það almennilega tölfræði. Þetta er með ólíkindum,“
„Þetta risa inngrip í líf einstaklinga var ekki einu sinni þess virði að halda yfir það almennilega tölfræði. Þetta er með ólíkindum,“ segir Hanna Katrín og bætir við að mikil leynd hvíli yfir málinu vegna skorts á upplýsingum.
Katrín svaraði Hönnu Katrínu í seinni ræðu sinni að sú grein hafi verið gagnrýnd fyrir að hafa óljósar skilgreiningar.
„Það var talað um að meðferð ætti ekki að koma til nema brýnar heilsufarslegar ástæður krefjist þess og það skorti skilgreiningu á hverjar þær væru,“ segir Katrín. Þá myndi liggja fyrir óvissa hjá heilbrigðisstarfsfólki og taldi Katrín mikilvægt að leggja máli fram og gefa sér meiri tíma fyrir þessa grein. Ekki náðist sátt um tækniatriði varðandi framkvæmd greinarinnar þó allir væru sammála um markmið þess.
Grasrótarfrumvarp starfshóps
Gerð frumvarpsins hófst árið 2015 að frumkvæði samtakanna Intersex Ísland og Trans Ísland. Óformlegur en fjölmennur starfshópur var settur saman til að skrifa frumvarpið en í þeim hópi sátu þau Kitty Anderson, formaður Intersex Ísland, Ugla Stefanía Jónsdóttir, þáverandi varaformaður Trans Ísland, Aagot Vigdís Óskarsdóttir lögfræðingur, Sigrún Inga Garðarsdóttir og Birkir Helgi Stefánsson sem koma að málinu frá sjónarhóli kynjafræði og siðfræði, Auður Magndís Auðardóttir og María Helga Guðmundsdóttir frá Samtökunum ´78 með hjálp frá þingritara VG.

Hópurinn hafði í upphafi samráð við ungliðahreyfingar stjórnmálaflokkanna og þáði á starfstíma sínum ráð og ábendingar frá fjölda einstaklinga og stofnana, þar á meðal frá embætti landlæknis, umboðsmanni barna, Jafnréttisstofu, Mannréttindaskrifstofu Íslands og sérfræðingum teymis Landspítala um kynáttunarvanda og frá barna- og unglingageðdeild spítalans (BUGL).