„Það yrði að hefja ferli við það að færa verkefni Útlendingastofnunnar eitthvað annað og leggja stofnunina niður,“ segir Arndís Anna K. Gunnarsdóttir sem er inni sem nýr þingmaður Pírata, aðspurð um sitt fyrsta verk á þingi, verði niðurstaðan sú að hún haldist inni það sem eftir lifi nætur. Arndís Anna er í 2. sæti á lista Pírata í Reykjavíkurkjördæmi Suður. Hún var ekki inni samkvæmt fyrstu tölum en datt inn þegar næstu tölur voru lesnar úr kjördæminu og hefur verið inni síðan.

Arndís Anna er lögmaður og hefur mikið unnið að málum hælisleitenda og flóttamanna, bæði sem lögfræðingur hjá Rauða krossinum og sjálfstætt starfandi lögmaður.

Arndís var enn í gleðskap með Pírötum þegar Fréttablaðið hafði samband stuttu fyrir klukkan þrjú. Þrátt fyrir að Píratar hafi misst aðeins fylgi segir Arndís gríðarlega stemningu í hópnum og mikla bjartsýni. Nóttin sé enn ung.

Aðspurð um helstu tíðindi næturinnar og gott gengi Framsóknarflokks og Flokks fólksins, segir Arndís að Pírötum sé alls ekki brugðið.

„Þetta voru mjög ófyrirsjáanlegar kosningar og eru ennþá,“ segir Arndís Anna.