Alvarleg umhverfisspjöll áttu sér stað í Vatnajökuls þjóðgarði í byrjun vikunnar, en þar spændu ökuþórar upp sandana á stóruum svæðum.

„Já, þetta er með því verra sem ég hef séð,“ segir Þórhallur Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Ferðafélags Fljótsdalshéraðs, sem gjörþekkir hálendið á norðaustanverðu landinu eftir hálfrar aldar uppbyggingarstarf í Kverkfjöllum.

Þórhallur Þorsteinsson telur nauðsynlegt að fræða fólk um afleiðingar utanvegaaksturs.
Mynd/ÞórhallurÞorsteinsson

Þórhallur segir hjólförin vera mikil og ljót, líklega um tuttugu sentimetra djúp þar sem þau risti mest, en mennirnir hafi farið hringi eftir hringi úti á söndunum og markað svokallaða kleinuhringi í auðnina með áberandi hætti.

„Ef ekkert er að gert geta merki um svona umhverfisspjöll varað í áratugi,“ segir Þórhallur og Hreiðar bætir við að lagfæringarnar, sem gerðar verða að hálfu starfsmanna Vatnajökulsþjóðgarðar á næstu dögum, muni ekki bæta sárin að fullu. „Það munu alltaf sjást litabrigði á söndunum eftir að starfsmenn hafa farið þarna um með hrífur sínar,“ segir Hreiðar, „en svo kemur frostlyfting í þetta í vetur og þess munu sjást merki nokkuð lengi,“ bætir hann við.

Nauðsynlegt er að bregðast hratt við til að koma í veg fyrir að förin festist lengi í jörðinni.
Mynd/ÞórhallurÞorsteinsson

En mikilkvægt sé að laga spjöllin sem fyrst. „Ella eru örin í landinu hvatning fyrir aðra ferðamenn að fara eins að,“ útskýrir Hreiðar. „Glannaleg förin eru svo gott sem áskorun fyrir aðra sem á eftir koma að gera betur,“ bætir hann við og segir reynsluna ólygnasta í þeim efnum.

Greinilega má sjá að mennirnir beygðu af leið útaf veginum í óspjallaða náttúruna.
Mynd/ÞórhallurÞorsteinsson

Utanvegaakstur alltof tíður

Þórhallur segir utanvegaakstur af þessu tagi, þar sem ökumenn leiki sér einfaldlega að því að spæna upp öræfasandana, vera alltof tíðan, ekki síst á meðal útlendinga sem geri sér ekki grein fyrir því hversu viðkvæm túndran sé upp til íslenskra heiða.

Háar sektir bíða þeirra sem stunda utanvegaakstur sem þennan.
Mynd/ÞórhallurÞorsteinsson

„Það þarf að koma skýrari skilaboðum til þeirra um borð í Norrænu og hjá bílaleigunum í landinu og gera þeim þar grein fyrir afleiðingum þessara gjörða, bæði fyrir landið og pyngjur viðkomandi,“ segir Þórhallur Þorsteinsson sem bætir því við að endingu að umferð hafi verið með minna móti upp í Kverkfjöllum það sem af er sumri og þar ráði tíðin mestu. „Það hefur verið kalt, og þar af leiðandi hefur verið rólegt,“ segir hann að lokum.

Förin voru á mörgum stöðum meira en 20 sentimetra djúp sem bendir til þess að stórir bílar hafi verið þar á ferð.
Mynd/ÞórhallurÞorsteinsson