Konur eru tvö­falt lík­legri til að vera beittar kverka­taki, þar sem tekið er um hálsinn og þrengt að, af hálfu maka eða ó­kunnugra. Sá sem beitir kverka­taki er með því að sýna vald sitt yfir brota­þola en árás með kverka­taki getur mjög auð­veld­lega leitt til dauða. Á­rásar­fólk er bók­staf­lega með líf annarra í höndum sér.

Heilt fræða­svið hefur sprottið upp í kringum rann­sóknir á kverka­taki í heimilis­of­beldis­málum. Auk þess að vera gróf vald­beiting er kverka­tak mjög hættu­legt, jafn­vel þegar það leiðir ekki strax til dauða. Mörgum þykir þó að vanti upp á að kverka­tak sé horft jafn al­var­legum augum í laga­fram­kvæmd.

Steinunn Gyðu- og Guð­jóns­dóttir, tals­kona Stiga­móta, sagði í sam­tali við Frétta­blaðið að hún fagni því að heimilis­of­beldis­mál fái dóma yfir höfuð. Hún segir þó að kverka­tak mætti jafn­vel flokkast sem morð­til­raun og undrast að ekki sé tekið harðar á því í dóma­fram­kvæmd.

Hún bætir við að kvenna­hreyfingar og þjónustu­úr­ræði fyrir þol­endur kyn­bundins of­beldis hafi á heims­vísu barist fyrir því að á­vallt sé litið á kverka­tak sem morð­til­raun. Enda geti kverka­tak valdið með­vitundar­leysi á nokkrum sekúndum og dauða á fá­einum mínútum.

Steinunn Gyðu- og Guð­jóns­dóttir, tals­kona Stiga­móta, segir barist fyrir því á heimsvísu að kverkatak sé talið sem morðtilraun.
Fréttablaðið/Stefán

Alda Hrönn Jóhanns­dóttir, yfir­lög­fræðingur hjá Lög­reglu­stjóranum á Suður­nesjum, segir mikla vakningu orðið í heiminum undan­farin ár hvað háls­tak varðar og rann­sóknum fjölgað. „Of­beldi sem felur í sér háls­tak, það verður ekki mikið grófara en það. Þá ertu í raun að segja við við­komandi að þú sért með líf þeirra í þínum höndum,“ segir hún.

„Þú ert búinn að hræða líf­tóruna úr fólki þannig að það eru miklu minni líkur á að fólk veiti við­spyrnu en áður. Þú ert með allt valdið yfir við­komandi, þú ert að segja að þú ráðir hvort eða hve­nær þú klárir líf þeirra. Það verður ekki mikið grófara í eðli sínu,“ segir Alda.

Kverka­tak geri árás al­var­lega fyrir lögum

Árið 2016 var sett í lög grein 218b í al­mennum hegningar­lögum sem nær yfir al­var­leg eða sí­endur­tekin brot í nánum sam­böndum. Brota­þolar geta verið nú­verandi eða fyrr­verandi makar eða sam­búðar­aðilar, af­kom­endur og aðrir sem á­rása­r­aðili er ná­kominn, hefur um­sjón með eða deilir heimili með.

Fyrri máls­grein á­kvæðisins getur varðað allt að sex ára fangelsi en í annarri máls­grein segir að ef brotið er stór­fellt geti það varðað allt að sex­tán ára fangelsi. Á það við til dæmis ef þolandi hefur beðið stór­fellt líkams- eða heilsu­tjón af á­rásinni eða jafn­vel bana.

Sam­kvæmt Öldu hefur lög­reglan á Suður­nesjum notast nokkuð oft við fyrri máls­grein laga­á­kvæðisins. Þar hafi þau yfir­leitt farið fram á tólf mánaða ó­skil­orðs­bundinn dóm að lág­marki.

Alda Hrönn Jóhanns­dóttir, yfir­lög­fræðingur hjá Lög­reglu­stjóranum á Suður­nesjum, segir ummerki um kverkatak oft ekki koma í ljós fyrr en nokkrum sólarhringum síðar.
Fréttablaðið/Stefán

Þá hafi um­dæmið látið á það reyna að á­kæra mál undir fyrstu máls­grein 218b, sem alla jafna næði ekki því al­var­leika­stigi, einungis út af kverka­taki. „Því við viljum meina að það sé hættu­leg að­ferð,“ segir hún. „Við viljum meina að með kyrkingar­taki þá sértu al­var­lega að ógna lífi, heilsu eða vel­ferð.“

Í nýjasta dómi Hæsta­réttar í máli sem varðar fyrstu máls­grein á­kvæðisins, mál nr. 47/2021, var á­rása­r­aðili sak­felldur og hlaut tíu mánaða fangelsis­dóm en fullnustu hans frestað skil­orðs­bundið í tvö ár. Hann hafði ráðist á fyrr­verandi maka á heimili hennar með grófum hætti og meðal annars beitt hana kverka­taki.

Lands­réttur heim­færði hátt­semina undir fyrstu máls­grein 217. greinar al­mennra hegningar­laga, sem varðar minni­háttar of­beldis­brot. Á­verkar voru víðs vegar á líkama brota­þola en töldust hver um sig ekki vera veru­legir. Hæsti­réttur var ó­sam­mála þeirri greiningu og færði brotið undir fyrstu máls­grein 218b.

„Hæsti­réttur taldi að á­rásin hefði í heild sinni verið talin til þess fallin að vekja mikla ógn hjá brota­þola auk þess sem fram væri komið að hún hefði orðið fyrir and­legu á­falli vegna á­rásarinnar,“ segir í dómi Hæsta­réttar. „Með at­lögunni hefði á­kærði á al­var­legan hátt og með of­beldi ógnað heilsu brota­þola og vel­ferð“.

Helmingur mann­drápa í nánum sam­böndum

Mikil fjölgun hefur orðið á til­kynningum vegna heimilis­of­beldis­mála, sam­kvæmt skýrslu em­bættis Ríkis­lög­reglu­stjóra sem kom út í lok mars á þessu ári. Þá hafi til dæmis þriðjungi fleiri mál verið til­kynnt árið 2021 en árið 2015. Þau hafi það nú að mark­miði að hækka hlut­fall brota­þola sem til­kynna upp í 25 prósent árið 2023.

Fjöl­skyldu­tengsl eða náin tengsl voru til staðar í rúm­lega helmingi mann­dráps­mála á árunum 2010 til 2020, sam­kvæmt skýrslunni. „Of­beldi af hendi maka eða fyrr­verandi maka getur stig­magnast eftir því sem tíminn líður og í slíkum að­stæðum getur í ein­hverjum til­vikum manns­líf verið í húfi,“ segir í frétta­til­kynningu með skýrslunni.

Ein af hverjum tíu konum sem leituðu til Land­spítalans á árunum 2005-2014 vegna heimilis­of­beldis höfðu verið teknar kverka­taki af nú­verandi eða fyrr­verandi maka. Það kemur fram í rann­sókn sem Drífa Jónas­dóttir, sérfræðingur hjá heilbrigðisráðuneytinu, fram­kvæmdi á­samt öðrum fyrir um tveimur árum síðan.

Drífa segir í sam­tali við Frétta­blaðið að rann­sóknin nái að­eins yfir á­kveðinn hóp þol­enda þannig að hlut­fallið kunni mögu­lega að vera hærra. Einnig séu á­verkar ekki alltaf sjáan­legir og því oft ekki greint að um kverka­tak sé að ræða.

„Þetta er bara á­kveðinn hópur, það er þær sem leita sér hjálpar,“ segir Drífa. „Þetta eru ekki upp­lýsingar um þær konur sem fara til dæmis til lög­reglunnar en ekki inn á heil­brigðis­stofnun, þetta er ekkert um þær sem segja engum frá og leita sér engrar að­stoðar.“

Drífa Jónas­dóttir, sérfræðingur hjá heilbrigðisráðuneytinu, vinnur nú að bættum verkferlum fyrir þolendur heimilisofbeldis.

Sam­kvæmt Drífu eru konur einnig tvö­falt lík­legri að vera teknar kverka­taki af maka en þegar þær verða fyrir líkams­á­rás eða lenda í slags­málum við ein­hvern sem þær þekkja ekki.

Drífa segir talið að um þriðjungur kvenna verði fyrir heimilis­of­beldi á ævinni. Í rann­sókn frá árinu 2010 var komist að þeirri niður­stöðu að á Ís­landi væri talan um 22 prósent. Unnið er að nýrri rann­sókn í þeim efnum núna en ekki eru til upp­færðar tölur fyrir Ís­land að svo stöddu.

Heimilis­of­beldi er að miklu leiti vera dulið vanda­mál, sam­kvæmt Drífu, aðal­lega út af skömm og nánd við á­rása­r­aðila. Það sé auð­veldara að horfa fram hjá rauðum flöggum og jafn­vel of­beldi af hálfu ein­hvers sem er manni ná­kominn.

Alvarlegar afleiðingar geti komið fram dögum síðar

Alda segir á­verka eftir kverka­tak oft ekki koma fram fyrr en ein­hverjum sólar­hringum eftir að árás á sér stað. „Þegar við förum í út­kall þar sem of­beldi hefur átt sér stað er oft sem brota­þolar segja að háls­taki hafi verið beitt en við jafn­vel sjáum ekki neitt eða bara pínu­lítinn roða,“ segir hún.

Hún segir það mjög mikil­vægt þess vegna að farið sé í eftir­fylgni heim­sókn eftir fjóra til sjö daga því þá komi marið fram á hálsinum. „Þó brota­þoli fari til læknis sama sólar­hring þá er læknirinn ekki endi­lega að greina háls­tak heldur af því þú sérð það ekki,“ segir Alda. „Svo ertu jafn­vel eftir fjóra daga kominn með putta­förin á hálsinn.“

Af­leiðingar af kverka­tökum eru einnig van­rann­sökuð en geta verið lífs­hættu­legar. „Fyrir utan and­legar af­leiðingar þar sem þol­endur oft lýsa því að þau hafi óttast um líf sitt, þá geta af­leiðingarnar verið mjög al­var­legar og endað með dauða,“ segir Drífa.

Drífa bendir á að það geti valdið skaða að stöðva blóð­flæði til heilans og hún segir ekki víst að ger­endur átti sig al­mennt á því hversu hættu­legt það er í raun. Heila­skaði og höfuð­högg geti leitt til fjölda al­var­legra af­leiðinga.

„Kverka­tak, að grípa um hálsinn og þrengja að hjá fólki, er alltaf í raun og veru eitt­hvað sem getur valdið lífs­hættu­legum á­verkum,“ segir Hjalti Már Björns­son, yfir­læknir bráða­mót­töku Land­spítala.

Hjalti Már Björnsson, yfir­læknir bráða­mót­töku Land­spítala, segir alvarlegar afleiðingar geta komið fram dögum eftir árás þar sem kverkataki er beitt.
Fréttablaðið/Vilhelm

Fyrir utan bráða­lokun á öndunar­vegi og köfnun þá séu mjög við­kvæm líf­færi á hálsinum, sam­kvæmt Hjalta. „Eitt af því sem getur gerst er að kverka­tak valdi skaða á háls­æðum og það geti síðan leitt til heila­blóð­falls sem getur komið strax eða jafn­vel nokkru síðar eftir at­burðinn,“ segir hann.

„Þetta getur valdið síð­búnum ein­kennum þó það sé al­gengast að það komi fram á fyrstu klukku­stundum eða dögum eftir. Þá verður alltaf að líta á kverka­tak sem lífs­hættu­lega árás að mörgu leiti sam­bæri­lega við hnífs­stungur eða annað sem getur hæg­lega leitt til dauða,“ segir Hjalti.

Bætt verk­lag til að auka lífs­líkur þol­enda

Drífa vinnur nú að verk­lagi innan heil­brigðis­kerfisins til að sam­ræma verk­lag varðandi mót­töku full­orðinna þol­enda heimilis­of­beldis af öllum kynjum á lands­vísu. Þar eru mál skráð inn í kerfið og þol­endum boðin aukinn stuðningur á­samt fleiru.

„Þannig á að leitast við að lækka endur­komu­hlut­fall, lækka inn­lagnar­hlut­fall, minnka líkur á stig­mögnun of­beldis og þar með, vonandi, auka lífs­líkur þol­enda,“ segir Drífa. „Bæta stöðu barnanna sem svo oft eru vitni að of­beldinu, beint eða ó­beint, og vonandi fá ger­endur líka til að átta sig á að þau séu að beita of­beldi.“

„Það er mikil­vægt að reyna að vekja ger­endur til lífsins varðandi það að þau séu að beita of­beldi,“ segir Drífa. „Ég per­sónu­lega held að það sé stærsta á­skorunin í þessum málum. Fólk skil­greinir sína hegðun ekki sem of­beldis­hegðun. Þar af leiðandi er erfitt að hætta henni eða biðja um hjálp.“