Desember hefur verið anna­samur hjá Agnesi eins og flestir mánuðir ársins eru í biskups­em­bættinu. „Ég átti þó eina frí­helgi í þessum mánuði og náði þá að baka laufa­brauð með fjöl­skyldunni,“ segir hún.

Agnes dvelur með fjöl­skyldu sinni á að­fanga­dag og sækir aftan­söng í Dóm­kirkjunni.

„Á jóla­dag predika ég við há­tíðar­guðs­þjónustu í Dóm­kirkjunni klukkan 11 og nýt svo sam­vista við fólkið mitt,“ bætir hún við. „Það er ekki mikill tími til að undir­búa jólin heima en þau koma samt og þó allt sé ekki til­búið þá er það bara allt í lagi ef húsið er hlýtt, fjöl­skyldan saman­komin, há­tíðar­matur til staðar og jóla­ljósin lýsa. Aðal­at­riðið er að finna frið í hjarta og öryggi.“

Agnes var spurð hvort trú hennar hefði styrkst í því mót­læti sem kristið starf virðist hafa orðið fyrir á undan­förnum árum. Hún svarar því játandi og segir að trú sín hafi styrkst mikið með árunum og traustið til Guðs hafi aldrei verið meira.

Há­tíð ljóss og friðar

Stundum er talað um að „um­búðir“ jólanna séu orðnar of miklar en Agnes gerir ekki mikið úr því.

„Um­búðirnar eru væntan­lega sam­kvæmt efnum og á­stæðum hjá hverjum og einum. Að­dragandi jólanna sýnir okkur líka að við höfum það mis­gott, sumir eiga mjög erfiða tíma um jólin – það er erfið til­hugsun og verk­efni fyrir okkur sem sam­fé­lag að vinna bug á. Ég veit og sé að allir eru að reyna að gera sitt besta fyrir fólkið sitt. Það er fal­legt.

Svo er fólk líka mis­jafnt, sum eru meiri jóla­börn en önnur eins og sagt er. Fyrst og fremst eru jólin há­tíð ljóss og friðar og sá boð­skapur er erindi jólanna og hlut­verk kirkjunnar að boða og biðja fyrir allt árið um kring. Kær­leikur jólanna ætti að vera til staðar allan ársins hring,“ segir hún en trú­mál hafa alltaf skipt Agnesi miklu máli enda var hún alin upp við trú­rækni. Faðir hennar var Sigurður Kristjáns­son, sóknar­prestur á Ísa­firði og pró­fastur í Ísa­fjarðar­pró­fasts­dæmi.

„Ég er alin upp við að kristin trú sé jafn sjálf­sögð lífs­skoðun og að fá að borða dag­lega, ganga í skóla og annað sem til­heyrir dag­legu lífi. Ég er líka alin upp við það að að­stæður fólks eru mis­jafnar og við eigum að hjálpast að í lífinu þannig að allir geti átt gott líf. Af­leiðing trúarinnar er að láta gott af sér leiða. Jesús Kristur er mín fyrir­mynd.“

Margir sækja messur um jól

Jólin eru sá tími þegar flestir sækja kirkjur landsins. Agnes segir að fyrir Co­vid hafi aftan­söngur á að­fanga­dag verið mjög vel sóttur víðast hvar um landið ef ekki alls staðar. „Kannski er minni messu­sókn á jóla­dag en áður var þar sem líka er messað á að­fanga­dag. En þá er hægt að fylgjast með há­tíðar­messu á jóla­dag, sem að þessu sinni verður frá Grafar­vogs­kirkju, á RÚV, bæði í út­varpi og sjón­varpi.“

Þegar Agnes er spurð um eftir­minni­leg augna­blik frá árinu sem er að líða, svarar hún því til að há­punktur ársins hafi verið á per­sónu­legum nótum. „Gifting dóttur minnar og tengda­sonar stendur upp úr hjá mér á þessu ári.“

Tekur ekki gagn­rýni nærri sér

Það gustar reglu­lega um biskups­em­bættið og sú varð raunin á þessu ári sem áður. Agnes segist hafa valið að taka það ekki nærri sér. „Enda ræð ég ekki yfir hugsunum og skoðunum annarra,“ segir hún.

Það er þó nauð­syn­legt að spyrja hana um á­hyggjur af heims­málum, stríði, lofts­lags­vá og þess háttar hættum. „Ég tel að það geti brugðið til beggja vona í þessum mála­flokkum ef við vöndum okkur ekki í um­gengni okkar við um­hverfið og höfum ekki kær­leikann að leiðar­ljósi í öllum okkar sam­skiptum. Ég bið þess að friður ríki í heimi og jafn­vægi náist í lofts­lags­málunum. Ég hef tamið mér að treysta þar til annað kemur í ljós. Það bendir þó margt til þess að næstu árin verði erfið víða um heim. Kirkjan á að leggja heil­mikið til í þessum málum og það hef ég viljað standa fyrir sem biskup Ís­lands,“ segir hún.

Tíu ár í em­bætti

Agnes var fyrsta konan sem tók við em­bætti biskups Ís­lands og hefur gegnt því í tíu ár.

Hefur hún ein­hvern tíma séð eftir þeirri á­kvörðun að sækjast eftir því?

„Ég er fyrst og fremst þakk­lát og stolt yfir því að að vera fyrsta konan til að vera biskup Ís­lands. Nei, ég hef ekki séð eftir því enda sóttist ég ekki bein­línis eftir því. Sem er góð upp­skrift að leið­toga ef Plató hafði rétt fyrir sér.

Ég lít á það sem köllun mína að sinna biskups­þjónustunni. En ég viður­kenni þó að nokkra daga á þessum tíu árum hef ég orðið þreytt. Svo vakna ég daginn eftir út­hvíld og tví­efld. Ég horfi yfir þessi tíu ár og er stolt af þeim breytingum og um­bótum sem hafa orðið og horfi bjart­sýn á fram­tíð kirkjunnar enda mann­auður þjóð­kirkjunnar fram­úr­skarandi og erindið ein­stakt.“

Áttu þér ein­hverja sér­staka ósk varðandi land og þjóð á komandi ári?

„Já, hún er sú að þau sem vilja breyta lífi sínu fái tæki­færi til þess. Að okkur lánist að út­rýma fá­tækt og heimilis­leysi. Að börn þessa lands búi við öryggi. Að ein­elti verði út­rýmt. Að virðing sé borin fyrir fólki á öllum aldri og að ekki verði litið á gamalt fólk sem byrði. Að þau sem lifa við fjötra fíknar komist á betri stað sjálfum sér og sínum til far­sældar,“ svarar hún og bætir við: „Jólin eru okkur á­minning um að við öll erum dýr­mæt í augum Guðs og skiptir kyn, litar­háttur eða stétt engu máli. Guð elskar okkur öll. Jólin eru há­tíð allra jarðar­barna. Ég óska lands­mönnum gleði og friðar á helgri há­tíð og bið þeim blessunar Guðs.“