„Þessir hlutir eru að raun­gerast sem er búið að tala um í mörg ár, löngu fyrir Co­vid. Hvort sem yfir­menn á Land­spítalanum telji sig vera að gera eitt­hvað til að reyna að halda fólki í starfi eða laga starfs­um­hverfið, þá er það ekki nóg. Nú er komið að þessum stóru tíma­mótum að fólk bíður ekkert lengur,“ segir Guð­björg Páls­dóttir, for­maður fé­lags ís­lenskra hjúkrunar­fræðinga, um upp­sagnir fjór­tán hjúkrunar­fræðinga á bráða­mót­töku Land­spítalans, sem tóku gildi nú um mánaða­mótin.

Guðbjörg segir mann­ekluna þegar kemur að hjúkrunar­fræðingum vera gamla sögu og nýja. Búið sé að leggja fram fjölda til­laga og leiða til þess að reyna að fjölga hjúkrunarfræðingum, sem hefði verið hægt að virkja fyrir löngu með því að hugsa til lengri tíma.

„Willum Þór hefur meira að segja sagt að hann sé sam­mála því að við höfum svo­lítið sofið á verðinum,“ segir Guð­björg.

Segir mikilvægt að bæta starfsumhverfi hjúkrunarfræðinga

Guðbjörg segist hrædd um að staðan sem nú er komin upp á bráða­mót­tökunni eigi eftir að birtast í mörgum myndum, og ekki bara á Land­spítalanum.

„Hjúkrunar­fræðingar eru ekki í neinum hlekkjum og þurfa ekki að starfa við hjúkrun frekar en þau vilja. En ég vona það svo inni­lega að þau geri það, en þau verða þá að gera það á sínum for­sendum, í því starfs­hlut­falli sem þau vilja og vinna yfir­vinnuna ef það er það sem þau vilja,“ segir Guð­björg, og bætir við: „en starfs­um­hverfið þarf svo sannarlega að bæta svo hjúkrunar­fræðingar sligist ekki undan á­lagi eins og raun ber vitni.“

Hissa á tímasetningu forstjóra

Í sam­tali við Frétta­blaðið fyrir helgi sagðist Runólfur Páls­son, for­stjóri Land­spítalans, hafa gríðar­lega miklar á­hyggjur af stöðunni á bráða­mót­tökunni í ljósi upp­sagnanna. Unnið væri að því þessa dagana að snúa þeirri þróun við og því sæi hann fram á bjartari tíma. Guð­björg segist hissa á tíma­setningu.

„Núna? Á að fara að gera það núna? Það var settur af stað hópur á vegum heil­brigðis­ráð­herra í vor um hvernig hægt væri að gera vinnu­um­hverfið betra. Á­standið var svona síðast­liðið sumar og því hefur farið versnandi í vetur. Þetta er búið að vera fyrir­liggjandi í lengri tíma. Af hverju var ekki löngu búið að gera eitt­hvað,“ segir Guð­björg, og heldur á­fram:

„Ef hann er með ein­hverjar lausnir væri gott að hann myndi stíga fram með þær og segja okkur hinum frá þeim, því eins og staðan er í dag er ekkert í spilunum. Ekkert,“ segir Guð­björg.

Kallar eftir því að stjórnvöld láti verkin tala

Hún segir mikil­vægt að þær lausnir sem búið sé að leggja fram í heil­brigðis­ráðu­neytinu verði teknar upp sem fyrst, á borð við að setja meira fjár­magn í kennslu og leið­rétta kyn­bundinn launa­mun.

„Það hlýtur að eiga að gerast við samninga­borðið, en við erum boðin og búin að leggja hönd á plóg og eiga þetta sam­tal. Það er kominn tími á að mikil­vægi hjúkrunar­fræðinga, sem eru hjartað í þessu heil­brigðis­kerfi, verði loksins viður­kennt. Það sáu það allir lands­menn í Co­vid,“ segir Guð­björg. Stjórnvöld þurfi að hætta að ræða þetta endalaust og láta verkin tala.

„En til þess þarf hjarta og þor, og ég kalla eftir því af hálfu stjórn­valda og Land­spítalans, því með hverjum deginum sem líður þá tapa allir. Heil­brigðis­kerfið tapar, yfir­völd tapa og hjúkrunar­fræðingar tapa,“ segir Guð­björg.