Sóln‎‎ý Pálsdóttir og eiginmaður hennar Sveinn Ari Guðjónsson sátu í rólegheitunum heima í stofunni á efri hæðinni í Efrahópi í Grindavík að horfa á bíómynd í sjónvarpinu þegar sonur þeirra, Pálmar, hljóp inn og tilkynnti þeim að nú væri farið að gjósa, og þar að auki nánast í bakgarði þeirra.

Þau þurftu bara á snúa höfðinu til hægri og líta út um gluggann til að sjá rauðan bjarma rétt handan fjallsins í fjarska.

Eins og fæðing eftir langar hríðir

Sólný er fædd og uppalin í Grindavík, hún meira segja fæddist í húsinu í næstu götu við heimili hennar í dag, og er því vön skjálftum.

„Þessar síðustu vikur hafa verið erfiðar,“ segir Sólný og andvarpar þar sem hún stendur á svölunum og horfir á eldgosið í fjarska. Himininn er rauður og í hrauninu við hliðina á húsinu hennar má sjá nokkra íbúa, blaðamenn og ljósmyndara brölta í myrkrinu með höfuðljós. Hún er í hálfgerðu spennufalli, enda hafa síðustu vikur verið erfiðar fyrir Grindvíkinga.

„Ég treysti fagfólkinu sem segir að þetta sé ekki að fara að ógna byggð, en eftir alla þessa skjálftahrinu er maður búin að vera stöðugt uppspenntur, að bíða með öndina í hálsinum,“ segir Sólný. Hún og fjölskyldan tók á móti blaðamanni seint að kvöldi þann 19. mars, rúmum klukkutíma eftir að gosið hófst í Geldingardal.

Útsýnið frá svölunum.
Sólný Pálsdóttir

Segir hún eldgosið vera eins og fæðing eftir langar og erfiðar hríðir. „Þetta er léttir, sérstaklega þar sem sérfræðingar segja okkur að nú fari að skjálftahrinan að róast.“

Skjálftarnir hafa verið nánast undir heimili fjölskyldunnar síðustu daga og vikur og hefur Sólný, líkt og margir Grindvíkingar, fundið fundið vel fyrir nær öllum skjálftum niður í tvo að stærð. Hún upplifði sjálf mikla skjálftariðu eftir stóra skjálftann.

„Ég er búin að fæða fimm drengi og þetta er svolítið svipað, eins og spennufall og fæðing,“ segir Sólný. Synir hjónanna heita Fjölnir, Pálmar, Sighvatur, Guðjón og Hilmar og dóttir þeirra heitir Máney.

„Maður er rólegur því eldgosið er á góðum stað ef svo má kalla. Þetta er langt frá byggð þó mér finnst eins og ég get teygt mig í þetta. Það er ákveðin fegurð í þessu, bara eins og í náttúrunni.“

Spurningakeppni, gleðifréttir og gos

Fjölnir situr í glugganum í stofunni á efri hæðinni og fylgist með rauða bjarmanum í fjarska með foreldrum sínum.

„Vinur minn sagði mér að ‏að væri byrjað að gjósa og ég trúði honum varla. Þá fór bróðir minn Pálmar og sagði mömmu og pabba að það væri byrjað að gjósa. Þau voru bara að horfa á sjónvarpið,“ segir Fjölnir, sonur Sólnýjar og Sveins.

Dagurinn í dag var ansi merkilegur fyrir Fjölni enda vann hann spurningakeppni í grunnskólanum sínum og fékk þar að auki gleðifréttir frá systur sinni, um að hún eigi von á barni.

„Já,“ segir Sólný. „Við fengum stórar fréttir í dag. Hún Máney tilkynnti okkur að hún eigi von á barni. Hún hélt að það yrðu stærstu fréttir dagsins,“ segir hún og hlær.

„Og svo kom bara gos,“ bætir Fjölnir við. Dagurinn er búinn að vera ansi viðburðarríkur fyrir fjölskylduna.

Eldgosið er langt frá byggð.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari