Tinna Berg­mann Jóns­dóttir og maðurinn hennar Guð­brandur eru bæði smituð af kórónaveirunni. Parið veit ekki hvaðan smitið kom en þau hafa bæði passað vel upp á hand­þvott og spritt undan­farnar vikur enda er Tinna ó­frísk að sínu fyrsta barni gengin 23 vikur á leið.

„Ég er vægast sagt ó­endan­lega á­hyggju­full af litla krílinu okkar, það er það eina sem skiptir mig máli akkúrat núna,“ segir Tinna í bréfi sem hún deildi á Face­book.

Hefur ekki fengið neinn hita

Í sam­tali við Frétta­blaðið segist Tinna vilja gera allt til þess að hjálpa og brýna fyrir al­var­leika veirunnar.

„Núna erum við bæði á besta aldri en vitandi ein­kennin þá eru mikil þyngsli yfir önduninni, erfitt að anda mikið inn og ekki hægt að anda djúpt inn án erfið­leika. Bein­verkir, haus­verkur og núna ný­lega er bragð og lyktar­skyn farið. En ég vildi segja að ég hef ekkert fengið hita. Ekki eina kommu. En mér líður samt mjög illa í líkamanum. Maðurinn minn hefur að­eins fengið mjög lágan hita, ekki yfir 38,5° sem segir okkur að það er allur gangur á þessu,“ segir Tinna.

Tinna er gengin 23 vikur með fyrsta barn þeirra.
Mynd/Aðsend

Tinna segir þau finna aug­ljósan mun á ein­kennunum kórónaveirunnar miðað við hefð­bundna flensu.

„Eins og ein­hver vond þoka sé yfir líkamanum og and­veginum. Fyrstu ein­kenni mín var vægur þurr hósti, annars hress. Svo á sólar­hring byrjuðu önnur ein­kenni að myndast eins og haus­verkur og vægir bein­verkir sem síðan þá hafa hægt og ró­lega á­gengst. Hjá manninum mínum var það allt öðru­vísi, hann byrjaði með þessa „þoku“ og bein­verki en hóstinn kom síðan seinna og er minni. Sem aftur segir okkur það að ein­kennin eru ekki alltaf alveg eins, þó mjög svipuð og koma í mis­munandi röð,“ segir Tinna.

Veikindin taka mikið á þrátt fyrir að þau séu ung og heilsuhraust

Biðlar hún til Ís­lendinga að taka veirunni al­var­lega á­samt því að fylgja því sem stjórn­völd ráð­leggi.

„Vera ekki að hittast í hópum, þó séu litlir og halda fjar­lægð. Við hittum litlu fjöl­skylduna okkar í mat helgina fyrir greiningu, þau eru öll komin í sótt­kví og mamma byrjuð með smá ein­kenni og ég krossa bara fingur,“ segir hún.

Tinna segir veikindin taka mikið á þau bæði þrátt fyrir að þau séu ung og heilsu­hraust.

„Verandi ung og heilsu­hraust með Co­vid 19 þá er þetta að taka veru­lega á okkur bæði líkam­lega. Karlinn sem er aldrei veikur og vanur að harka í gegnum allt getur vala sinnt brýnum ema­ilum, því er of­aukið. Og við erum rétt að byrja Co­vid ferlið ef marka má reynslu annara um að vera verstur á 6-7 degi.“

Leggur áherslu á að fólk haldi sig heima

Tinna segist vilja vekja at­hygli á al­var­leika veikindanna og leggur hún á­herslu á að fólk haldi sig heima.

„Ég get ekki lagt meiri á­herslu á að biðja ykkur að halda ykkur heima. Þeir sem mögu­lega geta. Farið extra var­lega þegar þið mætið í vinnu og sleppið öllum ó­nauð­syn­legum hittingum. Þetta er ekki veira sem þú vilt smitast af eða lenda í ó­vissu með að smita aðra. Núna skiptir ást og ná­granna kær­leikur öllu máli og við erum í sótt­kví/ein­angrun til þess að passa aðra. Þetta snýst ekki bara um okkur. Núna er ég að díla við þá ó­vissu að vera með Co­vid19 og 23 vikna ó­létt og ég óska engum að líða eins og mér líður með það akkúrat núna. Því læknar geta ekki sagt mér að allt sé ok, veiran er það ný og ég ekki komin lengra. Ég er ekki eina ó­létta konan á Ís­landi og margir með undir­liggjandi sjúk­dóma og aldraðir. Hugsum vel um hvort annað. Eitt gott sem ég las „For­feður okkar voru sendir í stríð, við erum send heim á sófann í sótt­kví, við getum þetta!“ Við erum öll í þessu saman.“