Einn ferðamannanna 39 sem lentu í sjálfheldu í óveðri á Langjökli í fyrrinótt, kona, fékk brjóstverki á jöklinum og var óttast að hún væri að fá hjartaáfall. Þurfti hún aðhlynningu sjúkraflutningamanna á leiðinni niður af fjallinu en tekið var við fólkinu á kaffihúsinu við Gullfoss.

„Við vissum ekki af ástandi þessa einstaklings fyrr en mjög seint í aðgerðinni,“ segir Ægir Guðjónsson hjá björgunarsveitinni Björg á Eyrarbakka, en hann var í aðgerðastjórn á meðan á þessu stóð. Þá lét konan björgunarsveitarfólk vita af vandræðum sínum. „Sjúkraflutningamenn fóru með Björg á vettvang og þeir sinntu ferðamanninum á leiðinni niður,“ segir Ægir.

Áður en björgunarsveitin kom á svæðið myndaðist óvissuástand þar sem talning leiðsögumanna var röng. Var það þessi umrædda kona sem óttast var að hefði týnst í bylnum. „Allir ferðamennirnir reyndust vera á svæðinu og í skjóli,“ segir Ægir.

Ekki var farið með konuna á sjúkrahúsið á Selfossi heldur hlynnt að henni á kaffihúsinu við Gullfoss eins og hinum. Ferðamennirnir voru margir hverjir með kalsár, þreyttir og barn átti erfitt með gang. Héldu ferðamennirnir að þeir myndu týna lífinu á jöklinum þessa nótt.

Díana Óskarsdóttir, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, segir að það hafi tekið langan tíma að ferja fólkið að kaffihúsinu. Þar voru bæði hjúkrunarfræðingar og læknar sjúkrahússins til staðar. „Þetta stóð yfir fram undir morgun og þeir sem voru búnir að vera þarna lengst fóru ekki fyrr en um hádegið daginn eftir.“

Ferðaþjónustufyrirtækið Mountaineers of Iceland hefur viðurkennt að hafa gert mistök, svo sem að kalla ekki björgunarsveitir til fyrr.

Margir ferðamannanna eru reiðir fyrirtækinu og þegar hafa einhverjir þeirra leitað til lögmannsstofu með það að markmiði að fá miskabætur vegna ferðarinnar.