Dýra­verndar­fé­lagið Villi­kettir stendur nú fyrir bíl­skúrs­sölu úti á Granda. Sjúkra­sjóður fé­lagsins er því sem næst tómur og brýn nauð­syn er á fjár­magni fyrir komandi verk­efni í sumar. Kettirnir Bjartur og Koli tóku vel á móti gestum bíl­skúrs­sölunnar í dag.

Lífið gengur fyrir

„Við vorum búin að safna til pening sem átti að fara í hús­næðis­kaup en við lentum í svæði þar sem voru mikil veikindi; mikið af kettlingum sem voru veikir,“ segir Arn­dís Björg Sigur­geirs­dóttir, for­maður Villi­katta í sam­tali við Frétta­blaðið. „Þó allir dýra­læknar gefi okkur góða díla þá fóru, bara út af þessum litlu kettlingum, 6,4 milljónir úr sjóðnum okkar. Lífið gengur fyrir þannig að hús­næðið bakkaði.“

Arndís ásamt köttunum Bjarti og Klóa, sem tóku á móti gestum bílskúrssölunnar í dag.
Fréttablaðið/Óttar

„Við erum að fara að taka þrjú stór svæði núna í sumar. Á einu þeirra, hér fyrir utan höfuð­borgar­svæðið, vitum við af um tvö hundruð villi­köttum. Þegar svona margir kettir eru saman á litlu svæði er alveg ljóst að það eru ein­hverjar sýkingar og svona í gangi hjá þeim,“ heldur hún á­fram.

Hún segir því að nauð­syn­legt sé fyrir fé­lagið að koma stöðu sjúkra­sjóðsins í lag. Sumarið verður anna­samt og heldur dýra­verndar­fé­lagið á­fram sex ára starfi sínu þar sem villi­kettir eru geldir og reynt að koma þeim inn á heimili. Það er að segja ef þeir vilja. Arn­dís segir að oft vilji villi­kettirnir ekki flytja inn á heimili; þá er þeim komið aftur á þann stað sem þeir voru á og séð til þess að þeim sé reglu­lega gefinn matur og á­kveðið eftir­lit haft með þeim.

Það er til nóg af kattabókum á góðu verði í bílskúr Villikatta.
Fréttablaðið/Óttar

Því á­kváðu Arn­dís og með­limir stjórnar Villi­katta að blása til bíl­skúrs­sölu með hjálp sjálf­boða­liða. Salan verður haldin á Fiski­slóð 79A alla þessa helgi og þá næstu á milli klukkan 12 og 17. Þar má finna allt milli himins og jarðar og þó að þar sé ekki endi­lega allur varningurinn tengdur köttum setur það ó­neitan­lega svip sinn á söluna að fyrrum eig­endur munanna eru heldur katt­elskir. Allur á­góði af sölunni rennur svo beint til fé­lagsins, í sjúkra­sjóðinn og í sjóð fyrir nýju hús­næði. Arndís segir nóg til af vörum sem félagið hefur sankað að sér héðan og þaðan og verður fyllt á alla bása þegar eitthvað klárast.

Loðnar móttökur

Þegar blaða­maður Frétta­blaðsins leit við á bíl­skúrs­sölu Villi­katta í dag tóku þar á móti honum tveir fer­fættir gest­gjafar. Norski skógar­kötturinn Bjartur og fyrrum villi­kötturinn Klói voru þar mættir á­samt eig­anda sínum Samönthu Miles. Samantha tók að sér Bjart, sem er hrein­ræktaður norskur skógar­köttur, vegna þess að ræktandi hans gat ekki haft hann hjá sér og ári síðar tók hún við Klóa inn á heimilið. Klói er Eyja­maður en sam­tökin Villi­kettir björguðu honum úti í Vest­manna­eyjum þegar hann var lítill kettlingur.

Klói var ó­neitan­lega ör­lítið feimnari en Bjartur, sem lék á alls oddi og vildi helst af öllu komast út úr búrinu til að geta heilsað al­menni­lega upp á góð­láta gesti bíl­skúrs­sölunnar, sem leggja Villi­köttum lið á erfiðum tímum. Bjartur og Klói voru aðeins á svæðinu fyrri hluta dagsins í dag en markmiðið er að fá fleiri eigendur, sem hafa fengið ketti hjá Villiköttum, til að koma með þá á söluna á morgun og næstu helgi.

Þeir sem vilja leggja Villiköttum lið geta styrkt félagið með því að leggja inn á reikninginn 111-26-73030 með kennitölunni 710314-1790.

Hér má finna Facebook-síðu viðburðarins þar sem hægt verður að fylgjast með sölunni.

Það var nokkuð mikið af fólki mætt á söluna þegar hún opnaði klukkan 12 í dag. Varningurinn er af öllum toga; finna má bæði fínustu bollastell og kattaklórur.
Fréttablaðið/Óttar