Tveir hópar mót­mælenda söfnuðust saman á Austur­velli í dag. Fyrri hópurinn kom á há­degi á sam­stöðu­fund gegn kyn­þátta­hatri, til þess að styðja við mót­mælendur úr hópi flótta­fólks og um­sækj­enda um al­þjóð­lega vernd hér á landi, sem mót­mælt hafa fyrir framan Al­þingi nótt sem nýtan dag í tæpa viku. 

Seinni hópurinn kom klukkan eitt, en var það Ís­lenska þjóð­fylkingin sem boðaði til mót­mæla gegn þeim ofan­greindu. Mót­mælendur í þeim hópi voru hvattir til þess að koma með ís­lenska fánann og mót­mæla „því of­beldi sem hælis­leit­endur og öfga­sam­tökin NO BOR­DERS sýndu ís­lensku sam­fé­lagi og lög­reglunni okkar í vikunni“. Að því sem fram kom í til­kynningu frá fylkingunni, en lög­reglan beitti pipar­úða gegn mót­mælendum í vikunni og hand­tók tvo.

Spiluð tónlist og ást í hjörtum

Muhammed Emin Kizikaya, meistaranemi í félagsfræði, mætti á samstöðufundinn á Austurvelli fyrr í dag. Sjálfur hefur hann verið búsettur á Íslandi í fimm á, en er fæddur og uppalinn í Danmörku. Á þeim tíma hefur hann lokið grunnámi í félagsfræði og lært íslensku. 

Í samtali við Fréttablaðið kveðst Muhammed að nokkur hundruð hafi verið saman komin á Austurvelli og stemningin hafi verið góð. „Það var spiluð tónlist og það voru allir þarna með ást í hjartanu.“

Sjálfur ákvað hann, eftir stutta stund á samstöðufundinum, að ræða við mótmælendur frá Íslensku þjóðfylkingunni. 

Íslenska þjóðfylkingin hefur meðal annars hafnað hugmyndinni um fjölmenningu og „styður öflugar aðgerðir til aðlögunar þeirra sem setjast hér að“. Þá hefur hópurinn talað opinberlega ítrekað gegn íslamstrú og vill banna alfarið moskur á Íslandi. 

Muhammed kveðst því telja harla ólíklegt að meðlimir hafi rætt við mann að nafni Muhammed áður.  

„Ég held að ofbeldið byggist upp sé vegna skaðlegra skilaboða sem þau sjá birtast á samfélagsmiðlum, sem tala gegn múslimum og innflytjendum,“ segir hann. „Ég vildi standa fyrir framan þau með stórt bros og hlýtt viðmót og segja, ég heiti Muhammed.“ Aðspurður segir hann þá úr hópnum, sem hann gaf sig á tal við hafi tekið vel í samræðurnar.

Stóð og brosti

„Ég sagði þeim að ég sé í meistaranámi og ræki mitt eigið fyrirtæki. Þau virtust hissa, en jákvæð, að ég geti talað íslensku eftir að hafa verið hérna í fimm ár,“ segir Muhammed sem kveðst þó ekki hafa kunnað við að taka þátt í neikvæðum umræðum hópsins. 

„Ég stóð bara þarna, brosti og hlustaði. Ég hef lært að ást, jákvæðni og þolinmæði geti fært fjöll. Svo ég stóð bara þarna og hlustaði. Ég held að þetta hafi farið mjög vel. Ég hef oft rætt við skoðannabræður þeirra og systur og ég held að þetta sé gott fólk en fólk sem heldur að þetta sé leiðin til að vernda landið.“

Finnst fordómar vera að aukast

Sem fyrr segir er Muhammed fæddur og uppalinn í Danmörku. Móðir hans flutti þangað þegar hún var þriggja ára og faðir hans um tvítugt en þau eru bæði Kúrdar frá Tyrklandi. Aðspurður hvort að honum finnist fordómar vera að aukast bæði á Íslandi og í Danmörku segir Muhammed það klárlega vera svo. „Ég finn fyrir fordómum á hverjum degi í Danmörku, ég vil ekki ljúga,“ segir hann alvarlegur. 

Þá segist hann líka finna fyrir þessu á Íslandi, en hann hefur meðal annars starfað sem leiðsögumaður hér á landi. 

„Ég er að leiðbeina ferðamönnum og þau spyrja mig um trúarbrögðin mín í staðin fyrir íslenska náttúru. Svo kemur í ljós að þau eru með mjög brenglaða mynd af íslam, en enda svo á að faðma mig og viðurkenna fordómana. Það sama á við í Danmörku. Síðan ég var barn þá hef ég upplifað að fólk öskri á mig út um gluggann, farðu burt úr landinu okkar, farðu aftur til þíns heima en staðreyndin að ég er ekki frá neinum öðrum stað en Danmörku, ég er fæddur þar, en það skiptir þau ekki máli.“

Þá segist hann sjá birtingarmyndir sambærilegra fordóma bæði í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum, en kveðst ekki vilja kenna fordómafullu fólki um heldur fremur sem tækifæri til að mæta skoðunum þeirra með velvild og ást. „Bara með því að vera góður og sýna velvild getur maður náð til þeirra. Þetta er eitthvað sem ég hef lært síðan ég var barn því ég óx upp í þessu umhverfi haturs. Ég hef lært að með mikilli þolinmæði getur maður náð til þeirra.“