Markaðsmisnotkunarmál lykilstarfsmanna Landsbankans fær efnismeðferð hjá Mannréttindadómstól Evrópu (MDE) samkvæmt ákvörðun dómsins fyrr í mánuðinum.

Sigurjón Árnason, fyrr­ver­andi banka­stjóri Lands­bank­ans, Ívar Guðjóns­son, fyrr­verandi for­stöðumaður eig­in fjár­fest­inga bank­ans, og Sindri Sveins­son, fyrr­verandi starfsmaður eig­in fjár­fest­inga bankans, voru allir dæmdir til fangelsisrefsingar fyrir markaðsmisnotkun með dómi Hæstaréttar í febrúar 2016.

Þeir vísuðu málinu til Mannréttindadómstóls Evrópu sem hefur úrskurðað um meðferðarhæfi málanna. Líkt og nokkur fjöldi annarra svokallaðra hrunmála komst málið í gegnum nálaraugað í Strassborg en mjög lítill hluti kæra fær efnismeðferð hjá dóminum.

Hefur dómurinn beint spurningum til íslenska ríkisins um mál kærendanna þriggja sem byggja á því að brotið hafi verið á rétti þeirra til réttlátrar málsmeðferðar og að mál þeirra hafi ekki verið dæmd af óvilhöllum dómstól vegna fjárhagslegs taps sem tilteknir dómarar við Hæstarétt urðu fyrir við fall bankanna.

Er meðal annars á því byggt að þeir dómarar við Hæstarétt, sem áttu hlutabréf í Landsbankanum og urðu fyrir tjóni við fall bankans, hefðu átt að víkja sæti í málinu vegna vanhæfis.

Óskar dómurinn eftir svörum frá ríkinu um fjárhagslega hagsmuni dómaranna Eiríks Tómassonar, Markúsar Sigurbjörnssonar og Viðars Más Matthíassonar í einhverjum hinna föllnu banka þegar þeir atburðir gerðust sem leiddu til málaferla og að lokum sakfellingar Sigurjóns, Ívars og Sindra. Umræddir dómarar eru allir komnir á eftirlaun.

Eins og Fréttablaðið hefur áður greint frá eru mál um meint vanhæfi dómara við Hæstarétt í málum fyrrverandi eigenda og lykilstarfsmanna úr öllum föllnu bönkunum þremur komin til efnismeðferðar hjá MDE.

Málin eru nú orðin fjögur og varða meint vanhæfi sex hæstaréttardómara sem dæmdu umrædd mál hér heima. Einn þeirra, Markús Sigurbjörnsson þá forseti Hæstaréttar, sat í dómi í þeim öllum.