Mannréttindadómstóll Evrópu hefur ákveðið að taka til efnismeðferðar tvö mál Nöru Walker, sem sakfelld var hér á landi fyrir að bíta hluta úr tungu fyrrverandi eiginmanns síns árið 2018.

Þetta kemur fram í tilkynningu sem birt var á vef dómsins á mánudag.

Fyrri kæra Nöru til dómsins varðar dóminn sem hún fékk fyrir líkamsárásina og málsmeðferðina í aðdraganda dómsins. Nara bar fyrir sig sjálfsvörn og bar vitni um að fyrrverandi eiginmaður hennar hefði ítrekað beitt hana ofbeldi. Umrætt kvöld hefðu hann og önnur kona sem viðstödd var, ráðist á hana.

Nara var dæmd í átján mánaða fangelsi fyrir árás á fyrrverandi eiginmann sinn og sat inni í um þrjá mánuði.

Síðari kæra Nöru varðar meðferð lögreglunnar á kærum hennar gegn fyrrverandi eiginmanni árið 2017 vegna ítrekaðs heimilisofbeldis sem hún segir hann hafa beitt sig bæði á Íslandi og í Bretlandi á árunum 2016 og 2017.

Í apríl 2019 tilkynnti lögregla Nöru að rannsókn málanna hefði verið hætt og þau felld niður. Ríkissaksóknari staðfesti þá ákvörðun annars vegar á þeim grunni að Ísland skorti lögsögu um hluta kæruefnanna og hins vegar af því að þau væru ekki líkleg til sakfellingar.

Með því að hafa hvorki rannsakað nægilega kærur hennar um ítrekað heimilisofbeldi né tekið mið af þeim við rannsókn sakamálsins gegn henni, þar sem hún bar fyrir sig sjálfsvörn, telur Nara að ríkið hafi virt að vettugi mikilvæg sönnunargögn í máli hennar og með því brotið gegn 3. grein Mannréttindasáttmálans um bann við pyntingum og ómannúðlegri meðferð eða refsingu og gegn 8. grein um friðhelgi einkalífs heimilis og fjölskyldu.

Nara telur íslenska ríkið einnig hafa brotið gegn jafnræðisreglu Mannréttindasáttmálans og að hún hafi fengið síðri málsmeðferð vegna kyns síns og þjóðernis.