Mannréttindadómstóll Evrópu úrskurðaði í dag að íslenskir dómstólar hefðu ekki gerst brotlegir við áttundu grein Mannréttindasáttmála Evrópu um réttindi til einkalífs þegar íslenskir dómstólar ákváðu að svipta foreldra forsjá yfir tveimur börnum sínum árið 2020.

Frá árinu 2016 hafa börnin dvalið hjá fósturfjölskyldu og móðir barnanna haft takmarkaðan umgengisrétt á meðan föðurnum hefur verið bannað að hitta þau.

Faðir barnanna var árið 2015 sakaður um að hafa brotið kynferðislega á börnunum en var sýknaður af því tveimur árum síðar. Börnin fóru aftur á heimili móðurinnar undir lok árs 2015 þar sem fjölskyldufaðirinn var fluttur út en þau voru tekin af heimilinu stuttu síðar eftir að það kom í ljós að móðirin leyfði honum að hitta börnin.

Hæstiréttur ákvað árið 2020 að svipta foreldrana forræði á grundvelli vitnaskýrslna og sálfræðimats frá árinu 2018. Í sálfræðimatinu kom fram að parið skorti foreldrahæfni, þau geti ekki tryggt öryggi barnanna sem hafi óskað eftir því að dvelja hjá fósturforeldrunum áfram. Þá hafi börnin sýnt merki um ótta í garð fjölskylduföðursins.

Sögðu aðgerðir barnaverndar óhóflegar

Foreldrarnir kvörtuðu til Mannréttindadómstóls Evrópu á grundvelli áttundu greinar Mannréttindasáttmálans sem snýst um réttindi fólks til einkalífs.

Í kvörtuninni komu fram ásakanir um að aðgerðir barnaverndar hefðu verið óhóflegar og skemmt samband fjölskyldumeðlimanna en dómstóllinn féllst ekki á það og bendir á að í málum þar sem fjallað er um réttindi barna sé ekki gerð krafa um að dómstólar hafi staðfest glæp heldur þurfi að huga fyrst að því sem barninu er fyrir bestu.

Í úrskurðinum kemur fram að Mannréttindadómstóll Evrópu álykti sem svo að dómstólar á Íslandi hafi tekið vel ígrundaða og nauðsynlega ákvörðun með hagsmuni barnanna í forgrunni.

Móðirin sé með takmarkaðan aðgengisrétt og að ríkið hafi átt rétt á því að banna föðurnum umgengnisrétt.

Hægt er að sjá úrskurðinn í heild sinni hér.