Mál um meint vanhæfi dómara við Hæstarétt í málum fyrrverandi eigenda og lykilstarfsmanna úr öllum föllnu bönkunum þremur eru komin til efnismeðferðar hjá Mannréttindadómstól Evrópu. Málin þrjú varða meint vanhæfi sex hæstaréttardómara sem dæmdu mál kærendanna hér heima. Einn þeirra, Markús Sigurbjörnsson, dæmdi öll málin þrjú, þá forseti Hæstaréttar.

Í öllum málunum varða kærurnar til MDE meint brot á 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, á þeim grundvelli að mál kærenda hafi ekki verið dæmd af óvilhöllum dómstól vegna fjárhagslegs taps sem þeir dómarar sem um ræðir urðu fyrir við fall bankana.

Auk máls Ólafs Ólafssonar, sem fjallað var um í Fréttablaðinu í gær, er annars vegar um að ræða mál Jóhannesar Baldurssonar og Birkis Kristinssonar sem gegndu stjórnendastöðum í Glitni fyrir efnahagshrunið og mál Elínar Sigfúsdóttur fyrrverandi framkvæmdarstjóra fyrirtækjasviðs Landsbankans.

Málin varða meint vanhæfi sex dómara

Málin varða meint vanhæfi alls sex dómara við Hæstarétt. Mál Jóhannesar og Birkis varðar meint vanhæfi Grétu Baldursdóttur, Markúsar Sigurbjörnssonar og Ólafs Barkar Þorvaldssonar; mál Ólafs Ólafssonar varðar meint vanhæfi Markúsar og Árna Kolbeinssonar og mál Elínar varðar meint vanhæfi Markúsar, Viðars Más Matthíassonar og Eiríks Tómassonar.

Málin eru öll komin í gegnum frávísunarsíu dómstólsins og verða því tekin til efnismeðferðar nema ríkið nái sáttum við stefnendur.

Eitt mál frá hverjum banka

Mál Elínar Sigfúsdóttur, framkvæmdarstjóra fyrirtækjasviðs Landsbankans, var fyrst þessara þriggja mála til Strassborgar. Elín var sakfelld í Hæstarétti fyrir þáttöku í umboðssvikum og dæmd í 18 mánaða fangelsi en með dóminum snéri Hæstiréttur við sýknudómi Héraðsdóms Reykjavíkur.

Í kæru sinni til MDE byggir Elín á því að þeir dómarar við Hæstarétt, sem áttu hlutabréf í Landsbankanum og urðu fyrir tjóni við fall bankans, hefðu átt að víkja sæti í málinu vegna vanhæfis. Fyrr á árinu var fallist á beiðni um endurupptöku dóms Hæstaréttar í máli Elínar og bíður hún því niðurstöðu á tvennum vígstöðvum.

Mál Jóhannesar Baldurssonar og Birkis Kristinssonar hefur einnig verið tekið til efnismeðferðar hjá MDE en þeir voru dæmdir fyrir umboðssvik og markaðsmisnokun í svokölluðu BK máli. Fékk Birkir fjögurra ára dóm í Hæstarétti en Jóhannes var dæmdur í þriggja ára fangelsi. Var dómur Hæstaréttar mildari en dómur héraðsdóms þar sem þeir fengu báðir fimm ára dóm.

Kæruefni þeirra hjá MDE varða meint vanhæfi Grétu Baldursdóttur, Markúsar Sigurbjörnssonar og Ólafs Barkar Þorvaldssonar. Hefur dómstóllinn óskað svara íslenskra stjórnvalda um fjárhagslega hagsmuni nefndra dómara í einhverjum hinna föllnu banka í þegar þeir atburðir gerðust sem leiddu til málaferla og að lokum sakfellingar Jóhannesar og Birkis.

Fjallað var um þriðja málið í Fréttablaðinu í gær, mál Ólafs Ólafssonar, eins aðaleiganda Kaupþings. Ólafur hlaut fjögurra og hálfsárs langan fangelsisdóm í svonefndu Al-Thani máli. Kæra hans til MDE lýtur að fjárfestingarumsvifum Markúsar Sigurbjörnssonar og Árna Kolbeinssonar, í aðdraganda falls bankanna.

Í greinargerð Ólafs er vísað til þess að þrátt fyrir að nefndir dómarar hafi ekki átt beina hagsmuni vegna hlutafjáreignar í Kaupþingi hafi fjárhagslegir hagsmunir verið svo samtvinnaðir öllu bankakerfinu að fall eins banka hafði óhjákvæmilega áhrif á hina bankana. Hefur MDE beint spurningum til ríkisins um málið, sambærilegum og í máli þeirra Jóhannesar og Birkis.

Sáttaflötur alltaf kannaður

Í samræmi við nýtt verklag hjá MDE fara öll mál sem tekin eru til efnismeðferðar fyrst í ferli þar sem kannað er hvort unnt sé að ná dómsátt í málinu. Eru mál Jóhannesar og Birkis og mál Ólafs í slíku ferli. Náist ekki sættir milli málsaðila fyrir 2. desember næstkomandi mun málunum ljúka með dómi að lokinni frekari málsmeðferð hjá MDE.

Mál Elínar er lengra komið. Það hefur verið í efnismeðferð ytra í rúmt ár og athugasemdum og svörum stjórnvalda við spurningum dómsins löngu skilað. Viðbrögð lögmanns Elínar við erindi stjórnvalda voru send dóminum skömmu fyrir síðustu áramót og er nú beðið dóms í málinu. Ekki liggur fyrir hvors er að vænta fyrr; dóms MDE í máli Elínar eða nýs dóms Hæstaréttar, en eins og fyrr segir hefur verið fallist á endurupptöku máls hennar í Hæstarétti.

Óvissa gæti skapast um önnur hrunmál

Kveði MDE upp áfellisdóma gegn ríkinu í umræddum málum er óvíst hvaða áhrif það mun hafa fyrir önnur hrunmál sem dæmd hafa verið. Það þyrfti að meta með tilliti til forsendna dómana og hvort þær eigi við önnur hrunmál sem umræddir dómarar dæmdu. Þangað til úr því verður leyst munu þau bætast við fjölmarga aðra dóma sem óvissa ríkir um, vegna Landsréttarmálsins og annarra mála sem dæmd hafa verið í Strassborg á undanförnum misserum.