Mann­réttinda­dóm­stóll Evrópu hefur úr­skurðað að rúss­neska sé á­byrgt fyrir dauða njósnarans Alexanders Lit­vin­en­ko sem lést í London vegna polonium eitrunar árið 2006.

„Rúss­land var á­byrgt fyrir morðinu á Aleksander Lit­vin­en­ko í Bret­landi“, segir í yfir­lýsingu frá MDE í kjöl­far úr­skurðarins.

Lit­vin­en­ko, sem var opin­skár gagn­rýnandi Vla­dimírs Pútíns Rúss­lands­for­seta, flúði frá Rúss­landi til Bret­lands, sex árum upp á dag áður en hann lést 43 ára að aldri eftir að hafa drukkið grænt te sem var eitrað með geisla­virku sam­sætunni polonium á Millennium hótelinu í London.

Rússar hafa ætíð neitað allri aðild að morðinu en bresk rann­sókn komst að þeirri niður­stöðu árið 2016 að Pútín hefði að öllum líkindum sam­þykkt leyni­þjónustu­að­gerð í því skyni að myrða Lit­vin­en­ko.

Þau komust líka að þeirri niður­stöðu að fyrrum KGB líf­vörðurinn Andrei Lugovoy hefði framið morðið á­samt Dmi­try Kovtun og að­gerðinni hafi verið stýrt af leyni­þjónustu Rúss­lands FSB, arf­taka sovésku leyni­þjónustunnar KGB.

„Dóm­stólinn komst sér­stak­lega að þeirri niður­stöðu að leiða mætti sterkum líkum að því að hr. Lit­vin­en­ko, hr. Lugovoi og hr. Kovtun hefðu verið njósnarar á vegum rúss­neska ríkisins“, segir í yfir­lýsingu MDE.