Mannréttindadómstóll Evrópu (MDE) mun á morgun kveða upp dóm sinn í máli gegn íslenska ríkinu vegna skipanar fimmtán dómara við Landsrétt árið 2017. Þá kemur í ljós hvort ákvörðun Sigríðar Á. Andersen dómsmálaráðherra, um að líta framhjá niðurstöðu hæfnisnefndar, standist lög og ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu.
Málið hófst þegar hún skipaði fimmtán dómara við réttinn þvert á mat hæfnisnefndar um skipan dómara við réttinn. Þannig hlutu fjórir dómarar, þeir Ástráður Haraldsson, Eiríkur Jónsson, Jóhannes Rúnar Jóhannsson og Jón Höskuldsson ekki náð fyrir augum ráðherrans þrátt fyrir að hafa staðist hæfnismat nefndarinnar.
Fjórmenningarnir lagt ríkið
Í staðinn lagði Sigríður til þau Ásmund Helgason, Arnfríði Einarsdóttur, Jón Finnbjörnsson og Ragnheiði Bragadóttur sem öll voru skipuð við Landsrétt þrátt fyrir að vera ekki á meðal fimmtán efstu í tillögum nefndarinnar. Kjarninn birti á sínum tíma skjal með einkunnagjöf dómnefndarinnar þar sem horft var til reynslu umsækjenda og hún metin út frá ýmsum þáttum. Þar má til dæmis sjá að Jón Finnbjörnsson hafnaði í 30. sæti á listanum en var samt skipaður við Landsrétt á meðan Eiríkur Jónsson, í 7. sæti, var ekki skipaður.
Eftir að skipanin við Landsrétt var kunngjörð ákváðu þeir Ástráður og Jóhannes Rúnar að leita réttar síns og í desember 2017 komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að ráðherrann hafi brotið stjórnsýslulög með því að ganga framhjá þeim þegar dómararnir voru skipaðir við Landsrétt. Voru þeim hvorum dæmdar 700 þúsund krónur í miskabætur.

Eftir að Hæstiréttur kvað upp dóm sinn sagðist Sigríður ánægð með að málarekstrinum væri lokið. Efnislega væri hún hins vegar ósammála niðurstöðunni hvað varðaði hennar aðkomu að málinu. Hún hefði ekki íhugað stöðu sína en tilkynnti að hún myndi setja nýjar reglur um meðferð mála af þessu tagi.
Í kjölfarið leituðu þeir Jón Höskuldsson og Eiríkur Jónsson réttar síns og var íslenska ríkið dæmt til að greiða þeim skaða- og miskabætur þar sem þeir hlutu ekki skipun, þvert á mat nefndarinnar. Í október í fyrra komst Héraðsdómur Reykjavíkur að því að Jóni skyldu greiddar fjórar milljónir í skaðabætur og 1,1 milljón í miskabætur vegna Landsréttarmálsins. Þá var skaðabótaskylda Eiríks viðurkennd en hann á enn eftir að sækja bætur sínar.
Tekist á um hæfi Arnfríðar
Eftir seinni dómana tvo gaf Sigríður það út að hún sæi ekki tilefni til að biðja þá sem vikið var af lista hæfnisnefndar afsökunar. „Ég fellst nú ekki á það að þetta ágæta fólk hafi orðið fyrir einhverjum miska vegna þess að ég hef sagt það og held því fram ennþá að þetta fólk allt saman var jafn hæft og vel hæft til að gegna störfum landsréttardómara,“ sagði Sigríður í viðtali í Kastljósi síðasta haust.
Landsréttur tók til starfa í byrjun árs 2018 og leið ekki að löngu fyrr en búið var að láta reyna á dómaraskipan Sigríðar. Þannig lagði lögmaðurinn Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson fram þá kröfu í Landsrétti, fyrir hönd skjólstæðings síns, að Arnfríður Einarsdóttir, sem Sigríður skipaði þvert á mat nefndarinnar, væri vanhæf í máli við dóminn.
Kröfuna lagði Vilhjálmur fram hinn 2. febrúar en henni var hafnað. Landsréttur sagði að skipun Arnfríðar yrði ekki haggað. Vilhjálmur kærði niðurstöðuna til Hæstaréttar sem staðfesti niðurstöðu Landsréttar í lok maí. Ákvað Vilhjálmur því að taka málið enn lengra og kærði það til MDE.

Kæran barst dómstólnum í lok maí og gaf MDE það út að málið fengi flýtimeðferð. Óskaði MDE eftir skýringum frá íslenska ríkinu. Annars vegar um hvernig það samrýmdist ákvæði mannréttindasáttmála að skipun dómara hafi ekki fylgt þeim ákvæðum laga að Alþingi skuli greiða atkvæði um hvert og eitt dómaraefni fyrir sig, í stað þess að greiða atkvæði um tillögu ráðherrans í heild eins og gert var. Hins vegar var spurt um niðurstöðu Hæstaréttar frá í maí, þegar kröfu Vilhjálms var vísað frá, í samhengi við fyrri dóm Hæstaréttar um brot ráðherrans á lögum við skipunina.
Hávær krafa um afsögn og vantraust lagt fram
Fjallað var um greinargerð ríkislögmanns á vef Kjarnans í haust en þar hafnar ríkið því að skipun dómaranna fimmtán við Landsrétt hafi verið gölluð eða spillt. Er þar vísað til þess að breytingar Sigríðar á tillögum nefndarinnar, með því að skipa Arnfríði við dóminn, hafi byggt á kynjajafnrétti og auknu vægi reynslu umsækjenda af dómarastörfum. Hvað einkunnaskjal nefndarinnar varðar segir ríkislögmaður að það hafi einungis verið vinnuskjal og það ekki haft opinbert gildi.
Talsverð óánægja hefur ríkt með ákvörðun Sigríðar að segja ekki af sér embætti þrátt fyrir fjölda áskorana. Í könnun sem Maskína lét gera snemma árs 2018 kom í ljós að tæp 73 prósent vildu að hún segði af sér. Skömmu síðar lagði stjórnarandstaðan fram vantrauststillögu á hendur henni sem síðan var felld.
Líkt og fyrr segir er það nú í höndum MDE að skera úr um hvort skipan Sigríðar við Landsrétt hafi verið andstæð lögum og ákvæðum mannréttindasáttmála Evrópu. Niðurstöðu þeirrar er að vænta á morgun.