Mann­réttinda­dóm­stóll Evrópu (MDE) mun á morgun kveða upp dóm sinn í máli gegn ís­lenska ríkinu vegna skipanar fimm­tán dómara við Lands­rétt árið 2017. Þá kemur í ljós hvort á­kvörðun Sig­ríðar Á. Ander­sen dóms­mála­ráð­herra, um að líta fram­hjá niður­stöðu hæfnis­nefndar, standist lög og á­kvæði mann­réttinda­sátt­mála Evrópu. 

Málið hófst þegar hún skipaði fimm­tán dómara við réttinn þvert á mat hæfnis­nefndar um skipan dómara við réttinn. Þannig hlutu fjórir dómarar, þeir Ást­ráður Haralds­son, Ei­ríkur Jóns­son, Jóhannes Rúnar Jóhanns­son og Jón Höskulds­son ekki náð fyrir augum ráð­herrans þrátt fyrir að hafa staðist hæfnis­mat nefndarinnar. 

Fjórmenningarnir lagt ríkið

Í staðinn lagði Sig­ríður til þau Ás­mund Helga­son, Arn­fríði Einars­dóttur, Jón Finn­björns­son og Ragn­heiði Braga­dóttur sem öll voru skipuð við Lands­rétt þrátt fyrir að vera ekki á meðal fimm­tán efstu í til­lögum nefndarinnar. Kjarninn birti á sínum tíma skjal með ein­kunna­gjöf dóm­nefndarinnar þar sem horft var til reynslu um­sækj­enda og hún metin út frá ýmsum þáttum. Þar má til dæmis sjá að Jón Finn­björns­son hafnaði í 30. sæti á listanum en var samt skipaður við Lands­rétt á meðan Ei­ríkur Jóns­son, í 7. sæti, var ekki skipaður. 

Eftir að skipanin við Lands­rétt var kunn­gjörð á­kváðu þeir Ást­ráður og Jóhannes Rúnar að leita réttar síns og í desember 2017 komst Hæsti­réttur að þeirri niður­stöðu að ráð­herrann hafi brotið stjórn­sýslu­lög með því að ganga fram­hjá þeim þegar dómararnir voru skipaðir við Lands­rétt. Voru þeim hvorum dæmdar 700 þúsund krónur í miska­bætur.

Eftir að Hæsti­réttur kvað upp dóm sinn sagðist Sig­ríður á­nægð með að mála­rekstrinum væri lokið. Efnis­lega væri hún hins vegar ó­sam­mála niður­stöðunni hvað varðaði hennar að­komu að málinu. Hún hefði ekki í­hugað stöðu sína en til­kynnti að hún myndi setja nýjar reglur um með­ferð mála af þessu tagi. 

Í kjöl­farið leituðu þeir Jón Höskulds­son og Ei­ríkur Jóns­son réttar síns og var ís­lenska ríkið dæmt til að greiða þeim skaða- og miska­bætur þar sem þeir hlutu ekki skipun, þvert á mat nefndarinnar. Í októ­ber í fyrra komst Héraðs­dómur Reykja­víkur að því að Jóni skyldu greiddar fjórar milljónir í skaða­bætur og 1,1 milljón í miska­bætur vegna Lands­réttar­málsins. Þá var skaða­bóta­skylda Ei­ríks viður­kennd en hann á enn eftir að sækja bætur sínar. 

Tekist á um hæfi Arnfríðar

Eftir seinni dómana tvo gaf Sig­ríður það út að hún sæi ekki til­efni til að biðja þá sem vikið var af lista hæfnis­nefndar af­sökunar. „Ég fellst nú ekki á það að þetta á­gæta fólk hafi orðið fyr­ir ein­hverj­um miska vegna þess að ég hef sagt það og held því fram enn­þá að þetta fólk allt sam­an var jafn hæft og vel hæft til að gegna störf­um lands­rétt­ar­­dóm­ara,“ sagði Sig­ríður í við­tali í Kast­ljósi síðasta haust. 

Lands­réttur tók til starfa í byrjun árs 2018 og leið ekki að löngu fyrr en búið var að láta reyna á dómara­skipan Sig­ríðar. Þannig lagði lög­maðurinn Vil­hjálmur Hans Vil­hjálms­son fram þá kröfu í Lands­rétti, fyrir hönd skjól­stæðings síns, að Arn­fríður Einars­dóttir, sem Sig­ríður skipaði þvert á mat nefndarinnar, væri van­hæf í máli við dóminn. 

Kröfuna lagði Vil­hjálmur fram hinn 2. febrúar en henni var hafnað. Lands­réttur sagði að skipun Arn­fríðar yrði ekki haggað. Vil­hjálmur kærði niður­stöðuna til Hæsta­réttar sem stað­festi niður­stöðu Lands­réttar í lok maí. Ákvað Vilhjálmur því að taka málið enn lengra og kærði það til MDE. 

Kæran barst dóm­stólnum í lok maí og gaf MDE það út að málið fengi flýti­með­ferð. Óskaði MDE eftir skýringum frá ís­lenska ríkinu. Annars vegar um hvernig það sam­­rýmdist á­kvæði mann­rétt­inda­sátt­­mála að skipun dóm­ara hafi ekki fylgt þeim á­kvæðum laga að Al­þingi skuli greiða at­kvæði um hvert og eitt dóm­ara­efni fyrir sig, í stað þess að greiða at­kvæði um til­­lögu ráð­herr­ans í heild eins og gert var. Hins vegar var spurt um nið­ur­­stöðu Hæsta­réttar frá í maí, þegar kröfu Vil­hjálms var vísað frá, í sam­hengi við fyrri dóm Hæsta­réttar um brot ráð­herr­ans á lögum við skip­un­ina. 

Hávær krafa um afsögn og vantraust lagt fram

Fjallað var um greinar­gerð ríkis­lög­manns á vef Kjarnans í haust en þar hafnar ríkið því að skipun dómaranna fimm­tán við Lands­rétt hafi verið gölluð eða spillt. Er þar vísað til þess að breytingar Sig­ríðar á til­lögum nefndarinnar, með því að skipa Arn­fríði við dóminn, hafi byggt á kynja­jafn­rétti og auknu vægi reynslu um­sækj­enda af dómara­störfum. Hvað ein­kunna­skjal nefndarinnar varðar segir ríkis­lög­maður að það hafi einungis verið vinnu­skjal og það ekki haft opin­bert gildi. 

Tals­verð ó­á­nægja hefur ríkt með á­kvörðun Sig­ríðar að segja ekki af sér em­bætti þrátt fyrir fjölda á­skorana. Í könnun sem Maskína lét gera snemma árs 2018 kom í ljós að tæp 73 prósent vildu að hún segði af sér. Skömmu síðar lagði stjórnar­and­staðan fram van­trausts­til­lögu á hendur henni sem síðan var felld. 

Líkt og fyrr segir er það nú í höndum MDE að skera úr um hvort skipan Sigríðar við Lands­rétt hafi verið and­stæð lögum og á­kvæðum mann­réttinda­sátt­mála Evrópu. Niður­stöðu þeirrar er að vænta á morgun.