Mannréttindadómstóll Evrópu mun kveða upp fimm dóma í málum íslenskra borgara gegn ríkinu fimmtudaginn 4. mars.

Um er að ræða þrjú mál tengd markaðsmisnotkunarmáli Landsbankans og tvö mál tengd Milestone.

Þrjú Landsbankamál

Kærendur Landsbankamálana eru Sigurjón Árnason, fyrr­ver­andi banka­stjóra Lands­bank­ans, tveir lykilstarfsmenn bankans; Steinþór Guðmundsson og Ívar Guðjóns­son.

Í kærum þeirra er meðal annars byggt á því að þeir dómarar við Hæstarétt, sem áttu hlutabréf í Landsbankanum og urðu fyrir tjóni við fall bankans, hefðu átt að víkja sæti í málinu vegna vanhæfis.

Líklega sama niðurstaða og í máli Elínar

MDE hefur þegar kveðið upp áfellisdóm yfir ríkinu í máli Sigríðar Elínar Sigfússdóttur, fyrrverandi forstöðumanns fyrirtækjasviðs bankans. Niðurstaða dómsins var að hlutafjáreign hæstaréttardómarans Viðars Más Matthíassonar í Landsbankanum hafi gefið tilefni til að meta hæfi hans sérstaklega og hlutleysi dómsins því ekki verið hafið yfir allan vafa. Því hefði Elín ekki notið þess réttar sem kveðið er á um í 6. gr. Mannréttindasáttmálans um réttláta málsmeðferð fyrir óvilhöllum og óháðum dómstól.

Af niðurstöðu MDE í máli Elínar má draga þá álytkun að svipaðrar niðurstöðu sé að ætla í framangreindum málum tengdum Landsbankanum, en Viðar Már sat í dómi í þeim. Þá eru málin sambærileg máli Elínar að því leiti að þremeningarnir voru sýknaðir í heild eða hluta í héraði en allir sakfelldir fyrir markaðsmisnotkun.

Tvö Milestone mál

Einnig verða kveðnir upp dómar í Strassborg á fimmtudaginn í málum tengdum Milestone. Kærendur málana eru Karl Wernersson, fyrrverandi hluthafi og stjórnarmaður í Milestone, og Margrét Guðjónsdóttir endurskoðandi.

Karl var ákærður fyrir umboðssvik og fleiri brot árið 2013. Hann var sýknaður í héraði en Hæstiréttur sneri dómnum við og sakfelldi hann fyrir alla ákæruliði og dæmdi hann í fangelsi í þrjú og hálft ár.

Tveir endurskoðendur voru einnig sýknaðir í héraði en sakfelldir að hluta í Hæstarétti fyrir stórfelld brot á lögum um ársreikninga.

Mál Karls og Margrétar til MDE lúta meðal annars að því að Hæstiréttur hafi snúið við sýknudómi í héraði án þess að hlýða á vitnisburði sakborninga eða annarra vitna. Í stað þess hafi Hæstiréttur endurmetið trúverðugleika og sönnunargildi framburðar, sem veittur var í héraði, en dómarar í Hæstarétti sjálfir ekki hlustað á, í andstöðu við rétt þeirra á réttlátri málsmeðferð, samanber 6. Gr. Mannréttindasáttmála Evrópu.

Í kæru Karls til MDE er því einnig haldið fram að hann hafi ekki verið dæmdur af óvilhöllum dómstóli vegna fjárhagslegra hagsmuna dómara í Hæstarétti. Málið varðaði stóra lánveitingu Glitnis til Milestone á fyrri hluta árs 2008. Í kæru sinni vísar hann til hlutafjáreignar Grétu Baldursdóttur, Ólafs Barkar Þorvaldssonar og Viðars Más Matthíassonar. Hlutafjáreign Ólafs Barkar í Glitni var umtalsverð í aðdraganda hrunsins en hvorki Gréta né Viðar Már áttu hlut í Glitni í aðdraganda hrunsins.

Ætla má að niðurstaða um þennan hluta málsins ráðist af því hvort hlutafjáreign Ólafs Barkar í Glitni hafi verið nægileg til að draga hæfi hans til að dæma mál um fall Glitnis í efa og hvort slíkt vanhæfi eigi einnig við um stjórnanda Milestone.