„Umbjóðandi minn er saklaus. Hann var sýknaður af ákæruatriðum í Hæstarétti í hitteðfyrra. Það er þar af leiðandi óheimilt að ýja að því að hann sé ef til vill ekki saklaus og byggja dóminn svo að einhverju leyti á því,“ segir Ragnar Aðalsteinsson, lögmaður Guðjóns Skarphéðinssonar.

Ragnar er afar ósáttur við dóm Héraðsdóms Reykjavíkur sem kveðinn var upp í morgun en ríkið var sýknað af bótakröfu Guðjóns vegna Geirfinnsmálsins.

Ragnar segir að þeir sem lesi dóminn hljóti að skilja hann þannig að dómarinn telji Guðjón sekan þrátt fyrir sýknudóm Hæstaréttar. Í forsendum dómsins sé sífellt ýjað að sekt þeirra sem sýknaðir hafa verið eftir endurupptöku málsins 2018.

„Þeir brjálast í Strassborg ef þetta er gert í tilvikum eins og umbjóðanda míns, þegar búið er að sýkna menn. Þá má ekki einu sinni ýja að því," segir Ragnar. Samkvæmt dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE) sé Guðjón saklaus.

MDE: „Andstætt réttinum til að teljast saklaus uns sekt er sönnuð"

Ragnar vísar til dóms MDE í máli gegn Austurríki um að það fari skýrt í bága við þann grundvallarrétt að teljast saklaus uns sekt sé sönnuð, að ýja að því að einstaklingur sem hefur verið sýknaður með lokadómi sé þrátt fyrir það sekur.

Í þessum dómi MDE segir meðal annars: „Þegar maður hefur verið sýknaður með endanlegum dómi, óháð því hvort sýknað er vegna sönnunarskorts, fer það í bága við réttinn til að teljast saklaus uns sekt er sönnuð, að svo lítið sem orða mögulegan grun um skekt, þar á meðal í sjálfum röksemdunum fyrir sýknudómi."

Markmiði reglunnar er lýst þannig í dómnum að henni sé ætlað að vernda sakborning gagnvart dómsniðurstöðum eða öðrum yfirlýsingum embættismanna og stjórnvalda sem jafna megi til ályktunar um sekt, hafi viðkomandi ekki þá þegar verið fundinn sekur á grundvelli laga.

Sýknað vegna sönnunarskorts

Í dóminum sem kveðinn var upp í morgun er vísað til ummæla í kröfugerð setts saksóknara í endurupptökumálinu fyrir Hæstarétti, þess efnis að vísbendingar séu um að játningar í málunum hafi átt við rök að styðjast því „ætla mætti að til undantekninga heyri að svo margir einstaklingar játi ranglega aðild að atlögu að manni eða mönnum sem leitt hafi hann eða þá til dauða og einnig að vitni styðji við þær játningar.“ Hins vegar hafi engin lík fundist, ekkert sé vitað um dánarorsök og engum áþreifanlegum sönnunargögnum sé til að dreifa um að mönnum þessum hafi yfirhöfuð verið ráðinn bani. Í dómi héraðsdóms sem kveðinn var upp í morgun eru þær ályktanir dregnar að sýknukrafa ákæruvaldsins í málinu hafi byggt á því að hlutlæg sönnunargögn skorti í málinu en ekki að fólkið sé saklaust.

Alvarlegast segir Ragnar að í dóminum skuli vísað til sakadómsins frá 1977 og dóms Hæstaréttar frá 1980 en dómarinn átti sig ekki á því að með dómi Hæstaréttar í hitteðfyrra eru þessir dómar gildislausir um sönnun, sönnunargögn og atvik.

Í dóminum er því einnig slegið föstu að sýknudómurinn frá 2018 hafi ekki sönnunargildi um málsatvikin. Um þau er vísað til dóms réttarins frá áttunda áratugnum þar sem Guðjón og aðrir sakborningar voru sakfelldir fyrir að hafa orðið Geirfinni að bana.

Þá er einnig fallist á með ríkinu að Guðjón hafi sjálfur stuðlað að aðgerðum gegn sér með frumburði sínum í skýrslutökum.

Vísað til eigin sakar Guðjóns

Um þetta segir meðal annars í dóminum. „Í ofan nefndum dómum er játning stefnanda lögð til grundvallar mati á sekt hans. Stefnandi hafði ekki fallið frá framburði sínum heldur „haldið fast við“ hann eins og segir í dómi Hæstaréttar. Með játningunni viðurkennir stefnandi að eiga sök á dauða Geirfinns. Eigin sök stefnanda sviptir hann því að geta átt rétt til skaðabóta.”

Í forsendum dómsins er einnig tekið fram að það skipti í raun ekki máli fyrir bótaréttinn hafi játning Guðjóns og aðrir framburðir hans við rannsókn málsins ekki verið sannleikanum samkvæm. Með röngum framburði við rannsókn máls sé rannsóknin afvegaleidd sem leiði bæði til lengri rannsóknartíma og þess að kveðinn verði upp rangur dómur. Þá geti verið refsivert að skýra rangt frá fyrir dómi og taka á sig sök. Svo segir í niðurstöðu héraðsdóms:

„Með vísan til framburða þeirra sem stefnandi gaf fyrir dómi hefur hann sjálfur valdið þeim aðgerðum sem hann reisir kröfur sínar á. Því hefur stefnandi fyrirgert rétti sínum til bóta vegna handtöku, gæsluvarðhalds, ætlaðs rangs dóms, afplánunar dómsins og skilorðsins/reynslulausnarinnar“.

Tjáningarfrelsi lögmanna rúmt

Aðspurður um aðfinnslur sem dómari gerir við málflutning Ragnars segir hann ekkert tillit tekið til þess rýmkaða tjáningarfrelsis sem lögmenn njóti fyrir dómi en fundið er að því að Ragnar hafi meðal annars byggt á því að háttsemi þeirra opinberu starfsmanna sem komu að rannsókn málsins hafi verið refsiverð.

Ragnar tekur dæmi um hvernig verjendur hafi á sínum tíma verið algjörlega útilokaðir frá dómþingum eins og fram komi málsskjölum. „Þetta telur dómarinn ósannað þótt þetta standi í málsskjölunum. Það er að mínu viti refsivert að brjóta þessi grundvallarréttindi,“ segir Ragnar.

Hann segir Guðjón strax hafa ákveðið að áfrýja málinu til Landsréttar.