Mannréttindadómstóll Evrópu hefur ákveðið að taka til efnismeðferðar kæru Arnars Helga Lárussonar, formanns Samtaka endurhæfðra mænuskaddaðra (SEM) til dómstólsins. Ákvörðun þessa efnis var birt á vef dómstólsins í gær.

Arnar beindi kæru til MDE vegna brota á Mannréttindasáttmálanum sem hljótist af ófullnægjandi aðgengi fyrir fatlaða að opinberum byggingum í Reykjanesbæ. Í kærunni er vísað til þriggja ákvæða sáttmálans: 8. grein um friðhelgi einkalífs og fjölskyldu, 14. grein um bann við mismunun og 6. grein um réttláta málsmeðferð fyrir dómi.

Arnar Helgi og SEM höfðuðu málið gegn Reykjanesbæ árið 2015 og kröfðust þess að bænum yrði gert að breyta tveimur opinberum byggingum í bænum, Duushúsi og 88 húsi til að bæta aðgengi fatlaðra. Var þess meðal annars krafist að hjólastólalyftur yrðu settar upp, skábrautum fyrir hjólastóla komið fyrir og útbúin yrðu bílastæði sérmerkt fötluðum sem næst inngangi.

Sveitarfélagið var sýknað fyrst í héraði og svo í Hæstarétti með vísan til sjálfsstjórnar sveitarfélaga og forræðis þeirra á forgangsröðun fjármuna.

Málsástæður Arnars eru meðal annars að lélegt aðgengi fyrir fatlaða standi því í vegi að hann geti tekið þátt í tómstunda-, frístunda- og íþróttastarfi í húsnæði á vegum sveitarfélagsins nema að takmörkuðu leyti, hvort heldur er á eigin vegum eða til að fylgja börnum sínum. Hann geti ekki sótt opna viðburði í lista- og menningarmiðstöð sveitarfélagsins í Duushúsi, sem er í eigu sveitarfélagsins, né í 88 húsinu, sem er félags- og menningarmiðstöð fyrir ungmenni, sem sveitarfélagið leigi af eignarhaldsfélagi.

Hann hafi ítrekað bent bæjaryfirvöldum á að aðgengi fyrir fatlaða í byggingum sveitarfélagsins sé ábótavant og hvorki í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands, stjórnarskrá, né nánar tilgreind ákvæði laga og reglugerða.

„Ég held ég hafi lagt fram yfir fimmtíu kærur vegna aðgengismála hjá sveitarfélaginu, oft vegna algerra smámála, sem lítið mál væri að laga en myndi muna öllu fyrir fólk í hjólastól,“ segir Arnar Helgi. Til dæmis sé einfalt að laga þröskulda sem ómögulegt sé að koma hjólastól yfir. Hann lýsir vonbrigðum með það fálæti sem athugasemdum hans hefur verið sýnt, en er bjartsýnn um málið og meðferð þess hjá MDE. „Við Íslendingar erum ótrúlega langt á eftir þegar kemur að aðgengismálum,“ segir Arnar Helgi.

Í kærunni til MDE byggir hann á því að vegna ólögmætrar mismununar sem hann verði fyrir vegna fötlunar sinnar, njóti hann ekki friðhelgi einkalífs og fjölskyldu til jafns við aðra og við meðferð málsins hjá dómstólum hér innanlands hafi engin tilraun verið gerð til að tryggja samræmi milli stjórnarskrárvarinna réttinda hans og hagsmuna sveitarfélagsins.

Í ákvörðun dómstólsins í gær er kallað eftir viðhorfum málsaðila til þess hvort aðgengi að opinberum byggingum njóti verndar ákvæðis sáttmálans um friðhelgi einkalífs og fjölskyldu og mun efnismeðferð málsins væntanlega hverfast um það atriði.