Banda­rískir ríkis­borgarar sem lenda í klandri í Austur­ríki geta nú leitað í úti­bú skyndi­bita­keðjunnar McDonalds til að fá lausn á sínum málum. McDonalds og banda­ríska sendi­ráðið í Austur­ríki skrifuðu í síðustu viku undir sam­starfs­samning sem felur það í sér að banda­rískir ríkis­borgarar geti leitað á nær­liggjandi McDonalds-staði ef þeir týna vega­bréfi sínu eða lenda í öðrum vand­ræðum.

Um er að ræða sólar­hrings­síma­línu og er ætlunin að starfs­fólk McDonalds komi fólki í sam­band við starfs­fólk sendi­ráðsins. Þessi nýi sam­starfs­samningur fellur mis­jafn­lega í kramið hjá fólki, sumir fagna á meðan aðrir lýsa yfir furðu vegna þessa.

„Eitt McVega­bréf til þess að taka með, takk fyrir,“ er meðal þess sem hnyttnir net­verjar hafa skrifað í at­huga­semdir undir færslu sendi­ráðsins. Hvort Donald Trump, for­seti Banda­ríkjanna, hafi eitt­hvað haft með valið á McDonalds að gera skal ó­sagt látið.

Það má þó vera ljóst að for­setinn er að­dáandi skyndi­bita­keðjunnar en hann bauð gestum sínum í Hvíta húsinu ham­borgara og franskar frá McDonalds þegar banda­ríska al­ríkið lokaði stofnunum um nokkurra vikna skeið í upphafi árs.

Frétt BBC um málið.