Bílaframleiðandinn Mazda er þekktur fyrir nýjungar í þróun véla og nú hefur Mazda tekið sannkallað risastökk í þróun bensínvéla með Skyactive-X vélinni. Í henni er þjöppunin í brunahólfunum sérlega há og vinnur undir 16:1 þrýstingi, sem er fáheyrður þrýstingur í bensínvél. Þá er innsprautun bensíns og lofts líka með óvenjulegum og breytilegum hætti sem eykur afl vélarinnar mikið þegar þess er óskað. Slík innsprautun krefst háþróaðrar tölvustýringar sem Mazda hefur þróað. Togkúrfan í Skyactive-X vélinni er bæði óvenju há og flöt, líkast og um væri að ræða dísilvél. Skyactive-X vélin snýst mun hraðar en hefðbundnar bensínvélar, oft um 1.000 snúningum hærra. Öll þessi nýja tækni eykur aflið um 20% og minnkar eyðsluna um 20-30%. Ekki ónýtt það, en fyrri Skyactive vélar Mazda voru reyndar eyðslugrannar fyrir áður.

Margir aðrir bílaframleiðendur hafa reynt að þróa vél í þessa átt, sem hefur bæði kosti bensínvéla og dísilvéla, en enginn þeirra hefur náð þvílíkum árangri og Mazda hefur tekist nú með Skyactive-X vélinni. Mazda hefur sett þessa nýju Skyactive-X vél í Mazda3 bíla og boðið völdum ökumönnum og sérfræðingum að reyna herlegheitin og trúa þeir vart þeim árangri sem Mazda hefur nú náð og tala um eitt stærsta stökk sem tekið hefur verið við langa þróun bensínvéla. Það verður dýrara að fjöldaframleiða þessa nýju Skyactive-X vél en samt ódýrara en að bjóða uppá Hybrid-aflrás að sögn forstjóra Mazda. 

Mazda hefur ekki hug á því að bæta rafmagnsmótorum og þungum rafhlöðum í bíla sína og hefur einsett sér að þróa bensínvélina sem mest áfram og það hefur aldeilis tekist. Fyrir þróun Skyactive-X vélarinnar var Mazda með lægstu meðaleyðslu allra bílaframleiðenda, en sú staða er væntanlega enn frekar tryggð með tilkomu þessarar nýju vélar. Með 2,0 lítra sprengirými er Skyactive-X vélin um 190 hestöfl og skilar álíka afli og meira togi og núverandi 2,5 lítra vél Mazda. Næst á dagskrá Mazda er einnig að þróa betur dísilvélar sínar með sömu markmið að leiðarljósi og með þessa Skyactive-X vél, en búast má við fyrstu bílunum með þessari vél í lok næsta árs.