Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, sagði á fjölmiðlafundi síðdegis að hver fruma í henni tryði að útgöngusamningurinn við Evrópusambandið væri rétt skref fyrir Breta. Hún myndi berjast fyrir framgöngu hans með kjafti og klóm.

Ljóst virðist vera að May á ærið verkefni fyrir höndum. Á þinginu í dag stigu fjölmargir í pontu og lýstu því ýmist yfir að samningurinn gengi of langt eða of skammt í að tryggja hagsmuni Breta. Tveir ráðherrar í ríkisstjórn hennar hafa sagt af sér undanfarinn sólarhring.

Í máli May síðdegis í dag sagði Theresa að hún þyrfti að verja störf verkamanna um allt Bretland. „Þetta kaus fólkið og við verðum að sameinast að baki þessum drögum, sem eru þau bestu sem okkur standa til boða,“ sagði hún.

Hún sagðist staðráðin í því að vinna sína vinnu, sem væri að skila sem bestri niðurstöðu fyrir bresku þjóðina.

Íhaldsmenn, sem styðja Brexit, hafa lýst yfir megnri óánægju með samningsdrögin á þinginu í dag. Jacob Rees-Mogg er þeirra á meðal en hann safnar nú liði að baki vantrauststillögu gegn May. „Samningsdrögin eru ekki í takti við vilja þjóðarinnar. Það er ekki hægt að samþykkja þessi kjör,“ sagði hann. „Það er ómögulegt að samþykkja að sundra Bretlandi.“

Andstaðan er einnig mikil á hinum endanum. Þingmenn verkamannaflokksins hafa sagt að við blasi að Bretlandi muni ekki takast að yfirgefa ESB. May geti ekki landað samningi sem verði samþykktur.

May, sem þykir vera í afar erfiðri stöðu, sagði síðdegis að hún væri leið að sjá að baki ráðherrum ríkisstjórnarinnar, sem sagt hafaaf sér. Hagsmunum Bretlands væri hins vegar best borgið ef samningurinn yrði samþykktur. Og fyrir því ætlaði hún sér að berjast.