Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, segir að senn gefist þingmönnum síðasta tækifærið til að koma Brexit til leiðar og hvetur þá til að fylkja sér að baki þess sem hún kallar nýjan samning. BBC greinir frá þessu.

May segir að þingmönnum muni gefast kostur á því að efna til annarrar þjóðaratkvæðagreiðslu um Brexit e þeir samþykkja samninginn sem hún hefur nú lagt á borðið. þetta er í fyrsta sinn sem hún opnar á möguleikann á annarri þjóðaratkvæðagreiðslu.

Forsætisráðherrann hefur kynnt samninginn fyrir þingmönnum. Í honum er meðal annars kveðið á um réttindi bresks vinnuafls, umhverfisvarnir og Norður-Írsku landamærin. Þá er þar að finna málamiðlanir í tollamálum, að því er BBC hermir. Í honum er líka að finna ákvæði um að ef neðri málstofa breska þingsins samþykkir samninginn kjósi þingið í kjölfarið um að halda aðra þjóðaratkvæðagreiðslu.

Forystumenn Verkamannaflokksins hafa hins vegar lýst yfir óánægju með þennan „nýja“ samning og telja að um sé að ræða gamla samninginn í nýjum búningi. Þingið hefur ítrekað hafnað þeim samningi. Litlar líkur eru taldar á að þessari útgáfu samningsins bíði önnur örlög.

Bretar hafa þá val um að hætta við Brexit eða yfirgefa Evrópusambandið án samnings. Við því hefur May ítrekað varað.