Á dögunum var nýr rafjepplingur á vegum Maxus kynntur í Noregi en það er Euniq 6. Á staðnum voru aðilar frá íslenska umboðinu Vatt ehf. í Skeifunni, en bíllinn verður kynnur þar í mars á næsta ári. Þar var einnig kynntur Maxus T60, sem er rafknúinn pallbíll sem einnig er von á til Íslands á næsta ári. Maxus T60 bíllinn verður aðeins fáanlegur með tvíhjóladrifi til að byrja með en kemur síðar með fjórhjóladrifi.

Maxus T60 verður fyrsti rafdrifni pallbíllinn sem kemur í sölu hérlendis. MYND/SONJA G. ÓLAFSDÓTTIR

Maxus Euniq 6 er stór jepplingur sem byggir á Maxus D60 bílnum. Hann er 4.735 mm langur og með 2.760 mm hjólhaf en veghæðin er 160 mm. Tvær raf hlöður verða í boði, annars vegar 52,5 kWst og hins vegar 70 kWst. Með minni rafhlöðunni er drægið 350 km samkvæmt NEDC staðlinum, en 510 km með þeirri stærri. Í Noregi er 70 kWst rafhlaðan staðalbúnaður, en drægi hennar samkvæmt WLTP staðlinum er einhverstaðar á milli 400-475 km. Rafmótor bílsins er 175 hestöfl og með 310 Nm togi en hámarkshraðinn er 170 km á klst. Um vel búinn bíl er að ræða, með 14 tommu upplýsingaskjá, glerþaki, díóðuljósum og viðamiklum öryggisbúnaði.