Maxus eT90 er stór, fimm sæta rafknúinn pallbíll með 88,5 kWst rafhlöðu og akstursdrægið er 330 km skv. WLTP. Þar sem gerðarviðurkenning fyrir eT90 er miðuð við atvinnutæki er akstursdrægið reiknað út frá fullhlöðnum bíl. Maxus eT90 kemur með rafmótor sem er 204 hestöfl og snúningsvægið er 310 Nm. Í staðalgerð kemur hann einnig með hitakerfi fyrir rafhlöðu. Maxus eT90 er með allt að 1.000 kg burðargetu og hann verður einnig fáanlegur með dráttarbeisli en dráttargeta bílsins hefur ekki verið gefin upp enn sem komið er.

Vatt ehf. á Íslandi, dótturfyrirtæki Suzuki hf., er í samstarfi við RSA, umboðsaðila Maxus í skandinavíu. Úlfar Hinriksson, framkvæmdastjóri Vatt og Suzuki, segir að fyrstu eT90 pallbílarnir komi til Íslands fyrir áramót. „Við erum spenntir yfir því að geta markaðssett fyrsta rafknúna pallbílinn í Evrópu. Þessi gerð bíla hefur einungis verið fáanleg með bensín- og dísilvélum. Við höfum orðið varir við mikinn áhuga á eT90.“ Úlfar bendir á að RSA, umboðsaðili Maxus á Norðurlöndum og víðar, hafi notið mikillar velgengni í sölu á pallbílum og muni njóta þeirrar reynslu til þess að hámarka sölu á eT90 á norska markaðnum. „Við bindum miklar vonir við góðar móttökur á eT90 hér á landi. Hann fellur fullkomlega inn í nýtt hólf á markaðnum því hann hentar jafnvel sem fjölskyldubíll, farartæki fyrir þá með öðruvísi lífstíl og fyrir fyrirtæki af margvíslegu tagi,“ segir Úlfar.