Icelandair mun hefja flug með Boeing 737 Max vélum félagsins í mars. MAX vélarnar voru kyrrsetta eftir tvö flugslys árið 2018 og 2019 þar sem 346 létust. Flugmálayfirvöld um heim allan hafa heimilað flug þeirra á ný eftir umfangsmikið endurmatsferli sem stóð í tæp tvö ár.
Gert er ráð fyrir að áætlunarflug með TF-ICN, sem ber nafnið Mývatn, til Kaupmannahafnar hefjist mánudaginn 8. mars. Að fyrstu verða einungis tvær af sex 737 MAX vélum félagsins notaðar en gert er ráð fyrir að TF-ICO, sem ber nafnið Búlandstindur, hefji flug bráðlega. Vélarnar komu nýlega til landsins frá Spáni þar sem þær voru í geymslu. Flogið verður reynsluflug án farþega áður en vélarnar hefja áætlunarflug.
Í bókunarferli þeirra sem hyggjast ferðast með Icelandair kemur fram hver gerð vélarinnar sem flogið er með sé. Icelandair „mun sýna þeim farþegum skilning sem kjósa að ferðast með öðrum vélum fyrst um sinn með sveigjanlegum bókunarskilmálum sem verða í boði tímabundið. Hægt er að gera breytingar á bókun án auka kostnaðar séu viðkomandi skilmálar uppfylltir eða fá ferðainneign,“ segir á vef flugfélagsins.
Þar kemur auk þess fram að uppfærslur hafi verið gerðar á vélunum og auknar kröfur verið settar á þjálfun flugmanna á vélunum. Nú þegar er búið að fljúga hátt í átta þúsund áætlunarflug með 737 MAX vélum.
Undirbúningur fyrir flug með vélunum hefur staðið yfir undanfarnar vikur hjá Icelandair. Flugvirkjar vinna að því að uppfæra þær í samræmi við kröfur flugmálayfirvalda og þjálfun flugmanna fer fram í þjálfunarsetri flugfélagsins í Hafnarfirði. Í tilkynningunni segir að Icelandair sé eitt fárra flugfélaga í heiminum sem eigi sérstakan 737 MAX flughermi.
Ég bind miklar vonir við MAX vélarnar
„Það er ánægjulegt að komið sé að því að taka 737 MAX vélarnar í notkun á ný. Okkar færustu sérfræðingar, flugvirkjar og flugmenn, leggja nú lokahönd á undirbúning fyrir áætlunarflug. Engin flugvélategund í sögunni hefur farið í gegnum jafn ítarlegt rannsóknar- og umbótaferli og við munum leggja okkur fram við að upplýsa farþega um öryggi vélanna. Ég bind miklar vonir við MAX vélarnar – þær eru hagkvæmari og umhverfisvænni kostur og koma til með að efla leiðakerfi Icelandair, viðskiptavinum okkar til hagsbóta,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair.