Tvær Boeing MAX 737-flugvélar lentu á Keflavíkurflugvelli í dag. Fyrri vélin, Mývatn, lenti rétt fyrir klukkan eitt á hádegi og sú seinni, Búlandstindur, um korteri seinna. Vélarnar hafa verið í geymslu í bænum Lleda á Spáni frá því að þær voru kyrrsettar árið 2018 í kjölfar tveggja mannskæðra flugslysa í Indónesíu og Kenía. Stýrikerfi vélanna hefur verið endurhannað og ýmsar aðrar ráðstafanir gerðar.
„Það lentu tvær af fimm vélum sem hafa verið í geymslu á Spáni,“ segir Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair, í samtali við Fréttablaðið.
Hún segir að þau hafi fengið alls sex vélar afhentar, af þeim voru fimm í geymslu á Spáni og ein hér á Íslandi.
Spurð hvað taki við núna segir Ásdís að nú taki við bæði uppfærslur og viðhald að kröfum flugmálayfirvalda. Auk þess sem flugmenn fá bóklega þjálfun og í flughermi.
„En bæði evrópsk og amerísk flugmálayfirvöld hafa staðfest flughæfi vélanna,“ segir Ásdís.
Hún segir að hér á Íslandi búi þau vel því þau hafi sinn eigin 737 MAX flughermi og því geti þjálfun flugmanna Icelandair farið fram í flugsetrinu þeirra í Hafnarfirði.
Verði teknar í notkun á vormánuðum
Ásdís segir það liggja fyrir nákvæmlega hvenær vélarnar verði teknar í notkun en að þau hafi sagt að þær verði teknar í rekstur á vormánuðum.
„Það fer auðvitað eftir ýmsu, meðal annars að flug fari að taka við sér.
Heldurðu að fólk sé stressað að fljúga með vélunum? Heldurðu að það þurfi að upplýsa fólk um hverju hafi verið breytt og uppfært?
Já, við munum gera okkar besta að upplýsa fólk um þær breytingar sem hafa verið gerðar. En nú sjáum við reynsluna í Norður-Ameríku. Þær hafa nú flogið um 4.000 flug í Norður-Ameríku og það hefur gengið mjög vel,“ segir Ásdís.
Hún segir að engin önnur flugvélategund í flugsögunni hafi farið í gegnum jafn ítarlegt endursamþykktarferli og Boeing 737 MAX og
„Nú hafa yfirvöld beggja vegna Atlantshafsins staðfest flughæfi og þar með öryggi vélanna. Við munum leggja okkur fram við að koma þessum upplýsingum á framfæri við okkar farþega og erum bjartsýn að það muni ganga vel,“ segir Ásdís Ýr að lokum.