Tvær Boeing MAX 737-flug­vélar lentu á Kefla­víkur­flug­velli í dag. Fyrri vélin, Mý­vatn, lenti rétt fyrir klukkan eitt á há­degi og sú seinni, Bú­lands­tindur, um korteri seinna. Vélarnar hafa verið í geymslu í bænum Lleda á Spáni frá því að þær voru kyrr­settar árið 2018 í kjöl­far tveggja mann­skæðra flug­slysa í Indónesíu og Kenía. Stýri­kerfi vélanna hefur verið endur­hannað og ýmsar aðrar ráð­stafanir gerðar.

„Það lentu tvær af fimm vélum sem hafa verið í geymslu á Spáni,“ segir Ás­dís Ýr Péturs­dóttir, upp­lýsinga­full­trúi Icelandair, í sam­tali við Frétta­blaðið.

Hún segir að þau hafi fengið alls sex vélar af­hentar, af þeim voru fimm í geymslu á Spáni og ein hér á Ís­landi.

Spurð hvað taki við núna segir Ás­dís að nú taki við bæði upp­færslur og við­hald að kröfum flug­mála­yfir­valda. Auk þess sem flug­menn fá bók­lega þjálfun og í flug­hermi.

„En bæði evrópsk og amerísk flug­mála­yfir­völd hafa stað­fest flug­hæfi vélanna,“ segir Ás­dís.

Hún segir að hér á Ís­landi búi þau vel því þau hafi sinn eigin 737 MAX flug­hermi og því geti þjálfun flug­manna Icelandair farið fram í flug­setrinu þeirra í Hafnar­firði.

Verði teknar í notkun á vormánuðum

Ás­dís segir það liggja fyrir ná­kvæm­lega hve­nær vélarnar verði teknar í notkun en að þau hafi sagt að þær verði teknar í rekstur á vor­mánuðum.

„Það fer auð­vitað eftir ýmsu, meðal annars að flug fari að taka við sér.

Heldurðu að fólk sé stressað að fljúga með vélunum? Heldurðu að það þurfi að upp­lýsa fólk um hverju hafi verið breytt og upp­fært?

Já, við munum gera okkar besta að upp­lýsa fólk um þær breytingar sem hafa verið gerðar. En nú sjáum við reynsluna í Norður-Ameríku. Þær hafa nú flogið um 4.000 flug í Norður-Ameríku og það hefur gengið mjög vel,“ segir Ás­dís.

Hún segir að engin önnur flug­véla­tegund í flug­sögunni hafi farið í gegnum jafn ítar­legt endur­sam­þykktar­ferli og Boeing 737 MAX og

„Nú hafa yfir­völd beggja vegna At­lants­hafsins stað­fest flug­hæfi og þar með öryggi vélanna. Við munum leggja okkur fram við að koma þessum upp­lýsingum á fram­færi við okkar far­þega og erum bjart­sýn að það muni ganga vel,“ segir Ás­dís Ýr að lokum.