Maðurinn sem reyndi að skaða sig á dögunum þegar hann hótaði að stökkva fram af göngubrú yfir Miklubraut er andlega og líkamlega veikur og flúði Íran vegna pólitískra ofsókna. Maðurinn er umsækjandi um alþjóðlega vernd og hafði stuttu fyrir atvikið á brúnni verið í þriggja vikna löngu hungurverkfalli.

Sema Erla Serdar, baráttukona fyrir réttindum hælisleitenda og flóttamanna og stofnandi hjálparsamtakanna Solaris, greinir frá þessu á Facebook-síðu sinni. Hún segir manninn hafa þjáðst af slæmri gyllinæð, og hafi afleiðingar hennar reynst honum „hrikalega sársaukafullar og hræðilegar“. „[Í] tilfelli [mannsins] voru þær ekki nógu hræðilegar til þess að Útlendingastofnun hafi verið tilbúin til þess að greiða fyrir aðgerð sem [hann] þurfti til þess að geta gengið eðlilega á nýjan leik, setið, borðað og komist í gegnum daginn á eins eðlilegan máta og hægt er í hans stöðu, svo hann þyrfti ekki að misnota verkjalyf til þess að minnka kvalirnar sem hann upplifði á hverjum degi,“ skrifar Sema á Facebook.

Þjáningar og vonleysi leiddu til örþrifaráða

Sema segir manninn hafa verið metinn sem einstaklingur í sérstaklega viðkvæmri stöðu og að Rauði krossinn á Íslandi hafi lýst yfir miklum áhyggjum af stöðu hans. „Samt sem áður fékk hann enga aðstoð og upplifði svo miklar þjáningar og vonleysi að hann neyddist til þess að grípa til örþrifaráða eins og hungurverkfalls, sjálfsskaða og hótana um að taka sitt eigið líf vegna þess að hann fær ekki nauðsynlega heilbrigðisþjónustu. Um er að ræða enn eitt dæmið um ómannúðlega og grimma meðferð Útlendingastofnunar á fólki á flótta,“ skrifar Sema.

Sema greinir frá því að hún hafi sett sig í samband við manninn eftir að hún sá fréttirnar af honum á brúnni yfir Miklubraut, og hafi ásamt túlki aðstoðað manninn. Þau hafi að lokum tekist að koma manninum í aðgerð sem hann jafnar sig nú á. „Við erum auðvitað langt frá því að hafa leyst allan vanda [mannsins], en ég get lofað ykkur því að staða hans er orðið aðeins betri en hún var þegar hann stóð á brúnni á Miklabraut,“ skrifar Sema og þakkar þeim sem komið hafa að starfi hjálparsamtakanna Solaris.

Sema tekur það jafnframt fram í samtali við Fréttablaðið að hún hafi leyfi mannsins til að segja frá þessari atburðarrás og ástandi hans.