Fimm tegundir maura hafa numið land á Íslandi, að því er kemur fram í rannsókn „mauragengisins“ í Líffræðistofu Háskóla Íslands. Gengið vinnur nú að verkefninu Maurar á Íslandi, sem gengur meðal út á að kortleggja útbreiðslu maura á Íslandi og kanna hvort húsamaurar hafi byggt sér risabú í holræsakerfum Reykjavíkurborgar.
Heilinn á bak við verkefnið er Marco Mancini, meistaranemi í líffræði, sem vinnur að verkefninu í tengslum við meistaraverkefni sitt ásamt BS-nemanum Andreasi Guðmundssyni. Leiðbeinendur þeirra eru Arnar Pálsson, prófessor í lífupplýsingafræði, og Mariana Tamayo, dósent í umhverfis- og auðlindafræði.
Marco og Andreas slást í för með meindýraeyði í hvert sinn sem tilkynnt er um maura og taka gjarnan maura með sér af vettvangi til rannsóknar og varðveitingar. Frá því að verkefnið hófst hafa félagarnir fundið fimm maurategundir á landinu, aðallega innandyra. Aðeins ein maurategund sem þeir hafa rekist á þrífst utandyra, svokallaðir blökkumaurar, sem hafa fundist í görðum Vesturbæjar og Garðabæjar.
Auk rannsóknanna hyggjast meðlimir mauragengisins svara röð spurninga um maura á Vísindavefnum. Hefur eitt þeirra svara þegar komið út og er þar gert grein fyrir sögu tilkynninga um maurabú á Íslandi allt aftur til ársins 1938. Er þar drepið á þeim tegundum maura sem hafa flækst til Íslands í gegnum árin, en þar er um að ræða tuttugu tegundir. Marco og Andreas vonast jafnframt til þess að framleiða kennsluefni um maura og önnur skordýr til að kynna íslensk börn fyrir þessum dýrum sem kunna að búa í þeirra nánasta umhverfi á næstu áratugum.