Verðhækkanir hafa verið mikið til umræðu undanfarið og hafa sumir velt því fyrir sér hvort slík umræða geti jafnvel leitt til frekari verðbólgu.

Ásta Sigríður Fjeldsted, framkvæmdastjóri Krónunnar, segist hafa áhyggjur af því að svona umræður geti ýtt undir upphlaup birgja sem skili sér í boðuðum verðhækkunum. „Við megum ekki tala okkur inn í þessa verðbólgu.“

Aðspurð hvort almenningur geti átt von á verðhækkunum í verslunum, segir Ásta Sigríður að verslunin fái fyrirvara frá birgjum sínum og reyni eftir fremsta megni að sporna við verðhækkunum. „Það er skylda okkar að tryggja neytendum samkeppnishæft vöruverð og reynum við að leita allra leiða til að milda áhrif hækkana.

Það er ljóst að einhverjar af þessum verðhækkunum munu skila sér á einn eða annan hátt út í verðlagið að einhverju leyti,“ segir Ásta Sigríður og bendir á að í sumum tilfellum sé skýringu boðaðra hækkana að finna í uppskerubresti eða hækkun á flutningskostnaði sem sé tímabundinn.

Ásta Sigríður segist vona að áhrif Covid-19 muni ganga til baka á næsta ári. „Öll aðfangakeðjan þarf að standa í fæturna til að hleypa ekki af stað verðbólgu.“

Sigurður Reynaldsson, framkvæmdastjóri Hagkaupa, segir verðhækkanir ekki komnar til áhrifa í verslunum enn sem komið er.

„Við erum að horfa fram á einhverjar hækkanir. Við erum samt að reyna allt til að standa á bremsunni og biðja okkar samstarfsaðila að sýna ábyrgð,“ segir Sigurður.

Hann bætir við að fyrirtækið sé búið að undirbúa sig vel með því að fylla allar geymslur í vöruhúsinu af vörum til að seinka áhrifum hækkana.

Aðspurður hvort almenningur muni finna fyrir verðhækkunum fyrir jólin segir Sigurður að innan tveggja til fjögurra vikna muni einhverjar hækkanir fara að berast í verslanir.

„Ég held þær komi kannski ekkert af fullum þunga fyrr en eftir áramót,“ segir hann jafnframt.

Sigurður segist binda miklar vonir við að hækkanir gangi til baka að hluta næsta vor, en það geti enginn spáð fyrir um það.

Sigurður telur umræðu um verðhækkanir ekki leiða til hærra vöruverðs. „Ég held að allir sem starfa í þessum bransa séu ábyrgir og viti sína ábyrgð í mikilvægi þess að halda vöruverði stöðugu. Það er enginn að leika sér að henda hækkunum út í loftið nema þær séu nauðsynlegar og ekki hægt að berjast gegn þeim.“