Sérfræðingar og dýralæknar á vegum Matvælastofnunar hafa ítrekað svarað gagnrýnum fyrirspurnum íslenskra dýraverndarsamtaka um blóðmerahald með þeim orðum að engu harðræði sé beitt við blóðtöku úr fylfullum hryssum.

Blóðmerahaldið komst í hámæli fréttaflutnings hér á landi í vikunni eftir að myndefni af meintu dýraníði við blóðtöku á nokkrum íslenskum hrossabúum var birt í fjölmiðlum, en það sýnir, svo ekki verður um villst, að harðræði er beitt við atferlið.

Fréttablaðið hefur undir höndum svör stofnunarinnar frá því á síðasta ári við ágengum spurningum þeirra sem helst hafa gagnrýnt blóðmerahald á Íslandi. Þar kemur fram að árið 2019 voru 5.036 hryssur notaðar til blóðtöku, „allar haldnar á útigangi“, eins og segir í svörunum.

„Hryssurnar eru reknar inn í þar til gerða blóðtökubása, mýldar og hausinn bundinn upp á meðan á blóðtökunni stendur,“ segir þar jafnframt, en „að öðru leyti ganga þær frjálsar með afkvæmum sínum.“

Í svörunum kemur fram að jafnt er tekið blóð úr tömdum og ótömdum hryssum, en svo er sagt: „Blóðtökuaðstaðan er þannig útfærð að hryssurnar renna alla jafna átakalaust inn í blóðtökubása sem er lokað að framan og aftan,“ en oftast sé böndum komið fyrir ofan við herðakamb hryssanna þannig að þær geti ekki prjónað.

Tekið er fram í svörunum að einungis dýralæknar sjái um blóðtökuna og að þeir gegni lykilhlutverki við að tryggja velferð hryssanna – og því fari fjarri að „augljóslega þurfi að beita hryssurnar ofbeldi“, segir í svörum Matvælastofnunar við spurningum þeirra sem helst hafa gagnrýnt blóðmerahald á Íslandi.