Verndarsjóður villtra laxastofna, North Atlantic Salmon Fund (NASF), hefur áhyggjur af fiskeldi í opnum sjókvíum og getu Matvælastofnunar til að hafa eftirlit með því. Þetta kemur fram í Facebook-færslu Elvars Arnar Friðrikssonar sem situr í stjórn NASF á Íslandi.

Hann gagnrýnir þar Matvælastofnun og segir það morgunljóst að stofnunin sé á engan hátt í stakk búin til þess að hafa eftirlit með fiskeldisiðnaðinum. Þannig starfi aðeins ein manneskja hjá Matvælastofnun sem á að fylgjast með öllum iðnaðinum á landinu og er hún í þokkabót staðsett á Selfossi, segir í færslu Elvars.

Hann sendi Matvælastofnun fyrirspurn um mikilvægar upplýsingar um fiskeldi á Vestfjörðum þann 7. apríl síðastliðinn. Nú rúmum mánuði síðar hefur hann enn ekki fengið svar en samkvæmt opinberum lögum hefur stofnunin eina viku til þess að veita þessar upplýsingar.

„Það er mitt mat að þau eru hrikalega undirmönnuð. Það er algjörlega fjarstæðukennt að það sé ein manneskja sem á að mónítora þennan iðnað sem að stendur til að þrefalda í stærð,“ segir Elvar í samtali við Fréttablaðið í dag.

„Ef að þetta er stofnun sem á að vera með eftirlit með iðnaðinum þá er það alveg ljóst að stjórnvöld þurfa hreinlega að fjármagna það umtalsvert meira ef þetta eftirlit á að hafa eitthvað vægi. Annars er náttúrulega bara verið að treysta á eitthvað innra eftirlit og hafa sum þessara fyrirtækja sýnt að þau eru ekki traustsins verð þegar kemur að því,“ segir Elvar að lokum.

Hér að neðan má sjá færslu Elavrs á Facebook.

Fiskeldi á Íslandi er orðinn stór iðnaður og það stendur til að stækka hann umtalsvert meira. Sú stofnun sem á að hafa...

Posted by Elvar Örn Friðriksson on Sunday, May 19, 2019