Matvælastofnun braut í bága við málshraðareglu stjórnsýslulaga við útgáfu ótímabundins starfsleyfis Hvals hf. til vinnslu hvalaafurða, samkvæmt úrskurði matvælaráðuneytisins sem birtur var í gær.

Hvalur hf. fékk bráðabirgðaleyfi til að verka hvalkjöt í júní árið 2018 en fyrirtækið óskaði eftir fullnaðarúttekt í september sama ár í því skyni að fá ótímabundið leyfi. Það leyfi var ekki veitt fyrr en 39 mánuðum síðar, í október 2021.

Í úrskurði ráðuneytisins voru það seinagangur í svörum Matvælastofnunar og ómarkviss rannsókn sem leiddu til tafa málsins. Þessi niðurstaða er þvert á fullyrðingar stofnunarinnar sem sagði í svörum sínum til ráðuneytisins að fullnægjandi gögn frá fyrirtækinu hefðu ekki borist fyrr en haustið 2021.

Um þetta segir í úrskurði ráðuneytisins að þótt fyrir liggi að nokkur dráttur hafi verið á svörum kæranda við fyrirspurnum stofnunarinnar, réttlæti það ekki að afgreiðsla málsins hafi dregist svo mjög sem raunin varð, í rúma 39 mánuði.

„Verður ekki framhjá því litið, að meginreglan er sú að þartilbært stjórnvald ber ábyrgð á því að málið fari í eðlilegan farveg og fái afgreiðslutíma í samræmi við ákvæði laga. Bar Matvælastofnun því að setja kæranda fresti til að svara erindum og leiðbeina um það hvaða afleiðingar það hefði ef ekki yrði brugðist við,“ segir í úrskurðinum.