Þorbjörg Guðrún Sigurðardóttir sem tók við forstöðu Vöggustofu Thorvaldsensfélagsins árið 1972 segir að sér hafi blöskrað það sem við henni blasti á vöggustofunni. Hún veitti vöggustofunni forstöðu frá 1972 til 1975 og gerði miklar breytingar á starfseminni.

„Þetta var hreint út sagt hræðilegt,“ segir Þorbjörg. „Ég tók við af Gyðu Sigvaldadóttur sem þó var búin að beita sér fyrir ýmsum umbótum þegar ég tók við árið 1972.

Ég kynntist vöggustofunni fyrst þegar ég var við nám í Fóstruskólanum árið 1964, en þá fórum við nokkrar námskonur saman og vorum á vöggustofu Thorvaldsensfélagsins í fjóra daga. Okkur varð svo mikið um að sjá hvernig þetta var að við kvörtuðum við doktor Sigurjón Björnsson sálfræðing sem var einn af kennurum okkar í Fóstruskólanum og ég veit að hann fór lengra með málið, meðal annars var það tekið fyrir í borgarstjórn.

Þetta var þannig að við máttum ekki hugga börnin ef þau grétu. Við áttum að gefa þeim pela á fjögurra klukkustunda fresti og skipta á þeim, en ekki að skipta okkur af þeim annars. Síðan var okkur uppálagt að baða börnin en það mátti aðeins taka fimm mínútur. Það var allt á þennan veg. Börnin áttu mjög bágt, þau voru hrædd við snertingu og mjög inn í sér,“ segir Þorbjörg.

Fréttavaktin á Hringbraut, Fréttablaðið og frettabladid.is hafa fjallað ítarlega um svokallað vöggustofumál á undanförnum dögum. Borgarstjóri sagði í gær að nauðsynlegt væri að öll kurl kæmu til grafar í þessu alvarlega máli og ætlar að leggja tillögu fyrir borgarráð í næstu viku um að málið verði rannsakað.

Rætt hefur verið við þá Viðar Eggertsson leikstjóra og Árna Kristjánsson sagnfræðing sem báðir voru vistaðir á vöggustofunni, sem þá hét Hlíðarendi, sem smábörn og hafa lýst óhugnanlegum aðstæðum þar og hve vanrækt börnin hafi verið hvað snertir andlega örvun og hlýju.

„Síðan kom ég aftur að heimilinu árið 1972 og þá sem forstöðukona eins og áður segir. Þá beitti ég mér fyrir breytingum en mætti mikilli andstöðu. Ég lét mála allt í glaðari litum, keypti leikföng handa börnunum og passaði það að ef komið var með systkini á vöggustofuna að þau væru ekki skilin að. Ég fann fljótlega mun á börnunum því að þau fengu aðeins meiri örvun og umhyggju og ég fann að starfsfólkið, meira að segja læknirinn sem var mjög mótfallinn þessu, sá framfarirnar,“ segir hún.