Persónuvernd hefur gert einstaklingi að fjarlægja skjáskot af Facebook-síðu sinni sem sýna kennitölu, reikningsnúmer og millifærslur annars aðila.

Komst stofnunin að þeirri niðurstöðu að birting persónuupplýsinganna hafi ekki samrýmst persónuverndarlögum.

Málið hófst með kvörtun þar sem kvartandi greindi frá því að einstaklingurinn hafi birt yfirlit yfir greiðslur frá sér. Þá færði hann rök fyrir því að birtingin hafi brotið gegn réttindum sínum.

Persónuvernd sóttist eftir viðbrögðum frá einstaklingnum sem birti skjáskotin, hér eftir nefndur ábyrgðaraðili, en fékk engin svör.

Kvartandi hafði ríkari hagsmuni

Í úrskurði stofnunarinnar kemur fram að birting skjáskotanna teljist sem vinnsla persónuupplýsinganna og falli því undir persónuverndarlög.

Með vísan í ákvæði laganna telur Persónuvernd að miðlun slíkra upplýsinga geti einungis átt rétt á sér ef „vinnslan sé nauðsynleg vegna lögmætra hagsmuna sem ábyrgðaraðili eða þriðji maður [gæti] nema hagsmunir eða grundvallarréttindi og frelsi hins skráða sem krefjast verndar persónuupplýsinga vegi þyngra.“

Er það niðurstaða Persónuverndar að ekki sé hægt líta svo á að þeir hagsmunir ábyrgðaraðila sem kunni að hafa kallað á birtingu skjáskotanna hafi vegið þyngra en hagsmunir kvartanda af því að upplýsingarnar yrðu ekki birtar.

Í ljósi þessa samrýmist birting upplýsinganna ekki persónuverndarlögum. Var ábyrgðaraðila gert að fjarlægja skjáskotin af Facebook-síðu sinni og þá í síðasta lagi 24. september síðastliðinn.