Landsflokkurinn auglýsir nú eftir frambjóðendum til að taka sæti á lista flokksins í öllum kjördæmum fyrir Alþingiskosningarnar í haust. Meðal þeirra sem taka þátt í framboðinu er Matthías Máni Erlingsson, vísað er á hann sem talsmann framboðsins í tilkynningu sem send var á fjölmiðla í morgun, Matthías Máni er þekktastur fyrir að hafa strokið af Litla Hrauni árið 2012.
Matthías Máni segir í samtali við Fréttablaðið að þegar sé búið að manna lista flokksins að hluta. „Það eru komnir nokkrir. Framboðið þarf tíu til tólf á lista, plús varamenn, þannig að það vantar fleiri í framboð,“ segir hann. Enn eru oddvitastöður lausar.
Skoðanir skipti ekki sérstöku máli
Jóhann Sigmarsson, formaður Landsflokksins og oddviti í Reykjavíkurkjördæmi suður, segir að það skipti ekki sérstöku máli hvaða skoðanir fólk er með, um sé að ræða almenna beiðni til almennings um að taka sæti á lista fyrir Landsflokkinn. „Fólk getur lesið stefnuskrána okkar. Þetta er mannleg stefnuskrá, fyrir almenning.“
Flokkurinn var stofnaður í mars síðastliðnum og stefnir á að vera með listabókstafinn L, umsókn flokksins mun vera í ferli í dómsmálaráðuneytinu.
Horfir fram á við
Mál Matthíasar Mána vakti mikla athygli á sínum tíma. Hann strauk af Litla Hrauni skömmu fyrir jólin 2012 og hann gaf sig ekki fram fyrr en í Þjórsárdal sex dögum síðar, þá vopnaður. Hann afplánaði þá fimm ára dóm fyrir tilraun til manndráps og húsbrot. Hann hefur einnig hlotið fleiri dóma.
Matthías Máni segir að hann hafi snúið við blaðinu. „Ég er búinn að leggja það [gamla lífernið] á hilluna. Núna horfir maður bara fram á við og bætir sig.“
Jóhann er ánægður með störf Matthíasar fyrir flokkinn og segir gott hjá honum að bæta sig.
Matthías Máni segir að störf hans fyrir flokkinn hafi fram að þessu snúið helst að ráðgjöf og stafræn vinnsla undirskriftalista. Hann er að íhuga að taka sæti á lista fyrir Alþingiskosningarnar í haust. „Ég er að hugsa það. Það er möguleiki.“