Árni var sak­felldur í héraði í desember 2017 fyrir tilraun til manndráps í Breiðholti fyrr á sama ári og dæmdur í fjögurra ára fangelsi. Hæsti­réttur vísaði málinu aftur heim í hérað og taldi málið ekki nægi­lega vel rann­sakað. Verjandi Árna hélt frammi þeim mögu­leika að um slys eða sjálfs­vörn hefði verið að ræða en á­greinings­laust er að brota­þolinn kom með hnífinn á staðinn en ekki ákærði. Ákæruvaldið byggir hins vegar á því að Árni hafi náð hnífnum af brotaþola og valdið áverkanum.

Matsgerð Kunz er í samræmi við atvikalýsingu ákæruvaldsins og telur hann líklegast að áverkinn hafi verið veittur með hnífi en ólíklegt sé að hann hefði komið til fyrir slysni vegna þess hve miklum höggþunga hefði þurft að beita. Þá útilokaði Kunz að brotaþoli hefði getað veitt sér áverkann sjálfur.

Verjandi gerði al­var­legar at­huga­semdir við störf Kunz í gær en Lands­réttur hefur þegar úr­skurðað að mats­gerð hans hafi ekki verið unnin í sam­ræmi við lög enda hélt Kunz hvorki mats­fund eins og skylt er né hafði hann fengið öll gögn málsins. Engu að síður sendi hann frá sér skjal sem inni­hélt álit hans á því sem hann hafði verið beðinn um að meta. Kröfu verjanda um að nýr matsmaður yrði dómkvaddur í stað Kunz hefur hins vegar verið synjað.

Aðspurður svaraði Kunz því til að hann hefði ekki talið þörf á matsfundi enda hefði hann talið sig hafa öll gögn sem hann þyrfti til að framkvæma matið. Í mörgum matsmálum, sérstaklega á Íslandi, hefðu ekki verið haldnir matsfundir.

Ítarlega var fjallað um málið á frettabladid.is í gær. Aðalmeðferð málsins verður fram haldið síðar í mánuðinum.