Eva Einarsdóttir, kynningarstjóri og fyrrum borgarfulltrúi, stefnir á það í haust að gefa út sína fyrstu matreiðslubók. Hún segir að það hafi verið lengi á döfinni en alltaf hafi eitthvað sem stöðvaði hana.

„Ég hef deilt uppskriftum í blöð en aldrei verið tilbúin að ganga alla leið og gefa út bók. Það er auðvitað mikil skuldbinding og slatti af vinnu auk þess sem það felur í sér ánægju frekar en fjárhagslegan ávinning. Ég hef mikla trú á að hlusta á það hvenær rétti tíminn er, því þetta á auðvitað að vera skemmtilegt ferli. Núna fann ég sterkt í mér að tíminn væri kominn,“ segir Eva.

Hún byrjaði með matarblogg í fyrsta fæðingarorlofinu sínu, en hætti því þegar hún varð, að hennar sögn, störfum ofhlaðin.

„Þá hætti ég að láta inn á síðuna en ég er alltaf að elda og prófa eitthvað nýtt,“ segir Eva, sem segir að nú noti hún Instagram í stað bloggsins. Miðillinn sé þægilegur fyrir matreiðslu og hún sé dugleg að deila þar inn efni sem sé matartengt.

„Ég set inn skrefin sem þarf að fylgja,“ segir Eva.

Uppskriftir tengdar viðburðum

Hún segist lengi hafa hugsað um það hvernig bókin ætti að vera uppsett og hafi oft skipt um skoðun en sé núna lent á hugmynd sem hún er mjög spennt fyrir.

„Þetta er stemningsbók þar sem að í stað hefðbundinna kafla er boðið upp á hugmyndir tengdar ákveðnum viðburðum.

„Þetta er stemningsbók þar sem að í stað hefðbundinna kafla er boðið upp á hugmyndir tengdar ákveðnum viðburðum."

Ég er í bókaklúbbi, matarklúbbi og spilaklúbbi og þannig yrði kannski einn kaflinn alveg tengdur því hvað ég býð upp á í spilaklúbbnum. Ég útskýri hverjir eru í boðinu og er með eitthvað þema, sem væri kannski ítalskt og auðvitað vegan,“ segir Eva.

Hún segir þannig að ef fólk fái hugmynd um að halda bröns geti það fundið góðar leiðbeiningar um það í einum kafla bókarinnar.

„Þá er allt á einum stað og uppskriftunum myndu fylgja persónulegar sögur og myndir úr viðburðum sem tengjast gestunum,“ segir Eva.

Hún segir að annað sem verði lögð áhersla á í bókinni sé vikuplan sem hún hafi byrjað að nota fyrir um þremur árum síðan.

„Það hefur minnkað allt röfl á heimilinu og það er ótrúlega gott að halda sig við það eins vel og maður getur.“


Sama plan en ólíkir réttir


Hún segir planið nokkuð fast á hennar heimili eftir þessi þrjú ár, en það geti verið vandasamt á stóru heimili að þóknast öllum um leið, en á heimili Evu eru þrjú börn á aldrinum tveggja til 14 ára. Hún segir að með því að vera með vikuplan og halda sig við það viti þó allir hvað er fram undan og þótt þeim þyki maturinn ekki góður einn daginn þá viti þau að vikuna á eftir verður eitthvað sem þeim líkar.

„Alltaf á mánudögum er súpa, sem er kannski ekki vinsælasti dagurinn, en börnin vita það. Þau eru með ólíkan smekk og því er kannski rauðleit súpa eina vikuna og svo grænleit súpa næstu vikuna. Svo á þriðjudögum er pasta, miðvikudögum afgangar og á fimmtudögum alþjóðlegt og pizzur á föstudögum,“ segir Eva og bætir við:

„Ég er því miður eina súpukonan á heimilinu og svo er ég með vandræðalegt blæti fyrir því að gera súpu sem er bæði ódýr og fljótleg og fólk hefur mjög gaman af því á Insta­gram.“

„Ég er því miður eina súpukonan á heimilinu og svo er ég með vandræðalegt blæti fyrir því að gera súpu sem er bæði ódýr og fljótleg og fólk hefur mjög gaman af því á Insta­gram.“

Hún segir að með því að vera með alþjóðlega flokkinn þá verði maturinn fjölbreyttur og fólk fái ekki leið á dagskránni.

Helgarnar nýtir hún svo til að prófa sig áfram og segir að maðurinn hennar, Eldar Ástþórsson, sé hennar helsta tilraunadýr.

Gulræturnar eru heilsteiktar.
Fréttablaðið/Valli

Heilsteiktar gulrætur

6-8 stykki gulrætur, fallegt ef misstórar, jafnvel mislitar
3-4 dl gular linsur
2 dósir af góðum, hökkuðum tómötum.
2 dl sjóðandi vatn
1 grænmetisteningur
2 msk. rauðvínsedik (eða annað edik)
2 laukar
2-3 hvítlauksrif
3 stjörnuanísar
2 kanelstangir
1 tsk. sinnepsfræ
2 tsk. ferskt engifer
1 tsk. túrmerik
1 tsk. cumin
½ - 1 tsk. chiliflögur
½ tsk. negull
1 msk. hlynsíróp
Salt og pipar
Smá af ferskum kóríander og steinselju

Léttsteikið laukinn, stjörnuanís, negulstangir og sinnepsfræin.

Leggið gulræturnar heilar á pönnuna, bara þrífa þær, ekki skera endana af.

Steikið á meðalhita í ca. 3 mínútur. Bætið við linsunum, engifer og öllu kryddi nema salti og pipar.

Ef þið eigið ekki allt kryddið, iss, skiptir ekki öllu.

Steikið áfram í nokkrar mínútur. Hellið svo yfir grænmetissoði og blandið saman, að því loknu tómötunum, sírópi og ediki.

Látið malla, minnst klukkutíma. Því lengur, því betra. Berið fram á fati, leyfið gulrótunum að njóta sín og stráið kóríander og steinselju yfir.

Bulgur er meginuppistaðan í Taboulleh.
Fréttablaðið/Valli

Taboulleh


Ég ákvað að hafa þetta taboulleh frekar einfalt og með minna af ferskum kryddvörum en ella, þannig að hinn rétturinn njóti sín betur. Það er alltaf gott að eiga bulgur, sem er meginuppistaðan. Þær minna á kúskús, sem er hægt að nota ef þú átt ekki bulgur.


4 dl bulgur
8 dl vatn
1 dl ólífuolía
3-4 msk. sítrónusafi
Lúka af ferskri steinselju og ferskri mintu
Salt og pipar


Til að setja yfir


Pistasíuhnetur
Ferskt rósakál (má sleppa)

Hitið vatn og salt og fáið upp suðu.

Hellið bulgur út í og fáið aftur upp suðu, setjið á lægri hita og leyfið að malla í 10-12 mínútur.

Takið svo af hellu, hellið smá ólífuolíu yfir og leyfið að kólna.

Hrærið saman ólífuolíu, sítrónusafa og smátt skornum kryddjurtunum og hellið yfir og hrærið.

Berið fram með auka sítrónusneiðum og stráið yfir pistasíuhnetunum, rósakáli og smá af kryddjurtum.

Sítrónu- og karrý fennel.
Fréttablaðið/Valli

Sítrónu- og karrý fennel


2 fennel
Ólífuolía
1 sítróna
1 tsk. karrí
Smá salt

Hreinsið fennel, skerið í strimla, hitið olíuna, léttsteikið, sáldrið ­karríi yfir, svo sítrónusafa og salti í lokin.

Mezze-plattinn.
Fréttablaðið/Valli

Mezze-plattinn

Döðlur
Ólífur
Rauðir piparbelgir
Vegan chorizo
Þurrkaðar apríkósur
Súrar gúrkur
Möndlur
Reyktur vegan ostur


Uppteknar konur kaupa svo tilbúinn hummus, grænan pikklaðan chili og snakk sem ég kaupi alltaf hjá Zorbian.