Verð á matarkörfunni breytist lítið milli júlí og ágúst hér á landi, mun minna en í Bretlandi og Frakklandi. Þetta kemur fram í verðkönnun sem Veritabus framkvæmdi í netverslunum í síðustu viku.

Matarkarfan hér hækkaði einungis um 0,15 prósent milli mánaða, sem jafngildir 1,8 prósenta verðbólguhraða á heilu ári.

Ávextir og grænmeti lækkuðu í verði og einnig kjöt og fiskur. Mjólkur- og drykkjarvörur stóðu að mestu í stað en mestu hækkanirnar voru í dósa- og þurrmat, sælgæti og snakki, auk þess sem brauðmeti hækkar eitthvað.

Talsverðar hækkanir virðast enn vera að koma inn í verðlag í Frakklandi og á Bretlandseyjum og mánaðarhækkunin í Frakklandi er 2,8 prósent en 2,1 prósent í Bretlandi.

Mjög miklar hækkanir eru á mjólkurvörum, dósamat og fleiri vörum í Bretlandi og Frakklandi.

Af þessu má draga þá ályktun að mjög dragi úr verðbólguþrýstingi vegna matarverðs hér á landi. Óvarlegt er þó að reikna með áhrifum þess í vísitölu neysluverðs sem Hagstofan birtir 30. ágúst næstkomandi vegna þess að þar styðst Hagstofan við eldri mælingar á matvælaverði.

Veritabus kannaði 100 vörur í netverslunum. Þar sem verð vantaði var kannað hilluverð í verslunum. Um sömu vörur er að ræða á Íslandi. Erlendu vörurnar eru valdar af sérfræðingum Veritabus til að endurspegla samsvarandi innlendar vörur.